Vegna kórónuveirufaraldursins verður aðeins örfáum gestum boðið til þingsetningar á þriðjudaginn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis.
Nýtt löggjafarþing, 152. þing, verður sett þriðjudaginn samkvæmt forsetabréfi um samkomudag Alþingis sem gefið var út þann 18. nóvember.
Venju samkvæmt hefst þingsetningarathöfnin með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 152. löggjafarþing og starfsaldursforseti Alþingis, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, býður alþingismenn og ráðherra velkomna og minnist látins fyrrverandi þingmanns og látins fyrrverandi ráðherra.
Þá verður kosin kjörbréfanefnd. Þingsetningarfundi verður síðan frestað.
Guðsþjónustan verður send út bæði í hljóð og mynd, á sjónvarpsrás Alþingis, á RÚV og á Rás 1.