Geir Guðmundsson, áhugamaður um kjörgögn og meðlimur í kjörstjórn í Kópavogi, kærði framkvæmd kosninga í Suðvesturkjördæmi þann 17. nóvember til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um svindl. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is.
Stundin greindi fyrst frá.
Baldvin Björgvinsson, umboðsmaður Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi, taldi sig sjá mismunandi stærðir á utankjörfundarseðlum. Geir segir hann vera traustan einstakling og því hafi hann ekki ástæðu til að draga frásögn hans í efa.
„Ég hef enga sérstaka ástæðu til að draga þennan umboðsmann J-lista í efa, hann er mjög traustur. Þegar hann kom til okkar á kjörstað í Kórnum gerði hann athugasemd við atriði sem öllum hafði yfirsést og sagði einn reyndur starfmaður að hann hefði röntgen augu og að ef eitthvað væri að færi það ekki framhjá Baldvini.
Þetta er orð á móti orði og þá er betra að fá þessu úrskorið að senda tvo rannsóknarlögregluþjóna á staðinn þar sem kjörgögnin eru geymd. Svo getur vel verið að þetta hafi verið utankjörfundaratkvæði sem var óvart skorið í sundur þar sem þarf að opna umslagið með hníf eða að kjörræðismaður sem hefur sjaldan séð um kosningar og hann óvart gripið í gamla atkvæðisseðla sem eru með annað útlit.
En það þarf bara að skoða þetta, fá þetta á hreint,“ segir Geir í samtali við mbl.is.
„Það er þverpólitískur hópur á Facebook þar sem þetta kom upp og menn voru sammála um að koma þessu áleiðis þar sem það leit ekki út fyrir að þessi undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa sæi neina ástæðu til að gera neitt. Eina leiðin var þá að senda kæru til lögreglunnar og menn myndu treysta henni til að fara yfir þetta og gefa endanlegt svar um hvort það væru mismunandi kjörseðlar utankjörfundar eða ekki.
Það er mjög óheppilegt ef það kemur orðrómur um að það hafi verið svindl í gangi og það ekki rannsakað og því mjög gott að lögreglan skeri úr um þetta. Mér skilst að þetta sé komið í ferli.“