„Miklu stærra en að þingmenn eigi sæti“

Lenya Rún Taha Karim segist hvergi nærri hætt, þótt Alþingi …
Lenya Rún Taha Karim segist hvergi nærri hætt, þótt Alþingi hafi ákveðið í kvöld að seinni talning skyldi gilda. Ljósmynd/Píratar

„Niðurstaðan er bagaleg og þetta eru fyrirsjáanleg vonbrigði,“ segir Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, um ákvörðun Alþingis að láta seinni talningu í kosningum til Alþingis gilda að lokinni rannsókn undirbúningsnefnar kjörbréfanefndar.

Lenya hefði dottið inn á þing hefði fyrri talning gilt en tekur nú sæti sem varaþingmaður. Þar að auki líður senn að lokaprófum í lagadeild og hyggst Lenya bretta upp ermar og einbeita sér að þeim eftir rússíbanareiðina.

Alls sögðu 42 já við að láta Alþingiskosningarnar gilda, 16 …
Alls sögðu 42 já við að láta Alþingiskosningarnar gilda, 16 sátu hjá og 5 sögðu nei. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Erum með löggjafa sem ákvað að gera lögbrot að sínum“

Hvernig horfir þetta við þér?

„Hér erum við með löggjafa sem ákvað að gera lögbrot að sínum og leggja blessun sína á niðurstöðu sem við vitum ekkert hvort að sé rétt. En þetta er auðvitað miklu stærra en það að þingmenn eigi sæti á Alþingi, þetta snýst um það hvort við getum treyst niðurstöðum kosninga, sem við getum ekki gert í þessu tilfelli,“ segir Lenya.

Sjálf kveðst Lenya glöð með að óvissan sé loks á enda. 

„Eins óvæntur glaðningur og það var þegar ég komst inn í þessa níu tíma í fyrstu, þá var þetta samt sem áður óvænt. Ef ég á að vera hreinskilin þá var ég gjörsamlega óundirbúin. En nú gefst mér færi á að fara regulega inn á Alþingi og læra á starfsemi þess sem varaþingmaður, sem er bara blessun í sjálfu sér,“ segir Lenya auðmjúk.

„Ég er bara rétt að byrja“

Heldurðu að Mannréttindadómstól Evrópu muni færa Íslandi skammir fyrir þetta allt saman?

„Ég trúi ekki öðru. Frambjóðendur hafa gefið til kynna að þeir ætli að skjóta málinu til MDE, þannig að ég trúi ekki öðru.“

Ætti að breyta stjórnarskrá til að passa að þetta gerist ekki aftur?

„Ef þetta mál sýnir okkur eitthvað þá er það hvað stjórnarskráin okkar er úrelt, þá sérstaklega 46.gr. Ef þingið getur ekki samþykkt nýja stjórnarskrá í heild sinni þá máþað að minnsta kosti byrja á að breyta þessu ákvæði,“ segir hún.

Lenya er þó að líta á björtu hliðarnar og hyggst klára laganámið, næla sér í reynslu af lögfræðistörfum og læra inn á störf þingsins sem varaþingmaður. „Það mun ég nýta mér til að koma sterkar til baka eftir fjögur ár, ef ríkisstjórnin endist svo lengi. Ég er bara rétt að byrja, ég er alls ekki búin,“ segir Lenya að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert