Flokkstofnanir Vinstri Grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja nú á fundum um stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.
Leggi þær blessun sína yfir stjórnarsamstarfið verður boðað til þingflokksfunda stjórnarflokkanna í fyrramálið þar sem formenn flokkanna munu hver fyrir sig leggja fram tillögu að skipan ráðherraembætta á vegum flokkanna.
Þegar mbl.is ræddi við Birgi Ármannsson, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, töldu þau ólíklegt að nokkuð yrði flokkstofnunum til fyrirstöðu að samþykkja stjórnarsáttmálann.
Ljósmyndari mbl.is náði þessum myndum af fundum Vinstri Grænna og Sjálfstæðisflokksins sem hófust fyrir stuttu.
Til stendur að óbreyttu að hin nýja ríkisstjórn verði kynnt á blaðamannafundi á morgun kl. 13, þar sem grein verður gerð fyrir nýjum stjórnarsáttmála, breyttri skipan ráðuneyta og hverjir muni gegna ráðherraembættum í stjórninni.