„Ég finn fyrir eftirvæntingu, þetta er mikið að meðtaka. Ég er líka með í huga þetta traust sem mér er sýnt og ábyrgð. Ég mun leggja mig allan fram til að rísa undir því trausti,“ segir Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra, í samtali við mbl.is við komu til Bessastaða á ríkisráðsfund.
Willum Þór segir að honum hugnist vel að skipuð verði fagleg stjórn yfir Landspítalanum. „Það er norræn fyrirmynd. Mikilvægt er að leggja áherslu á að það er til stuðnings stjórnendum og starfsfólki og okkur öllum en ekki gegn einum né neinum,“ segir Willum Þór.
Þú ert með bakgrunn í íþróttamálum, munum við sjá áherslu á lýðheilsutengdar forvarnir í þinni ráðherratíð?
„Já, í stjórnarsáttmálanum er horft á heilbrigðismál í víðara samhengi en oft áður. Við horfum til forvarna og lýðheilsumála og geðheilbrigðismála sem er afar mikilvægt. Við munum vinna að þessu en auðvitað er þungamiðjan í kerfinu sú þjónusta sem veitt er á hverjum degi. Við þurfum að efla hana og styðja.“