Svandís Svavarsdóttir, fráfarandi heilbrigðisráðherra og nýr matvæla- sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kveðst í samtali við mbl.is spennt fyrir nýju hlutverki sínu.
„Mér finnst svo gaman að læra nýja hluti og takast á við ný og spennandi verkefni. Þarna eru bæði sóknarfæri varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, það er auðvitað mikil losun á þessum sviðum, og svo kemur skógræktin og landgræðslan þarna inn. Svo eru líka sóknarfæri í matvælaframleiðslu, grænmetisræktun, lífræna ræktun og svo framvegis. Svo að þetta eru bara tækifæri,“ segir Svandís og bætir við að þetta sé mjög ólíkt því sem hún hefur tekist á við undanfarið.
Hún hafi þó, í ráðherratíð sinni sem heilbrigðisráðherra, verið í samstarfi með Kristjáni Þór Júlíussyni, þá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um sýklalyfjaónæmi.
Svandís segist þurfa ráðrúm til að setjast yfir málefni ráðuneytisins áður en hún geti svarað hvaða áherslur verði uppi við endurskoðun búvörusamninga, sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála.