Þingflokkar Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins funda allir klukkan ellefu í dag um ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar. Klukkan eitt verður blaðamannafundur á Kjarvalsstöðum þar sem formenn flokkanna þriggja munu kynna og undirrita nýjan stjórnarsáttmála.
Forseti Íslands mun skipa nýtt ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur á fundi ríkisráðs Íslands sem hefst klukkan fjögur í dag en núverandi ráðuneyti Katrínar verður veitt lausn frá störfum á fundi ráðsins sem hefst klukkan þrjú.
Að sögn Birgis Ármannssonar, formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, fundar Sjálfstæðisflokkurinn í Valhöll og verður um staðfund að ræða. Staðfestir Birgir að á fundinum verður tekin endanleg ákvörðun um hvaða embætti hver gegnir. Hann gat þó ekki staðfest hvaða ráðuneyti flokkurinn hefði fengið.
„Ég ætla ekkert að staðfesta um það, það kemur bara í ljós á eftir,“ segir Birgir.
Vinstri græn funda í þingflokksherbergi sínu í þinghúsinu, að sögn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, formanns þingflokks Vinstri grænna. Sagði Bjarkey að á fundinum yrði rætt um „ráðherraskipan og annað slíkt sem svona fundir ganga út á eftir að stjórnarsáttmálar hafa verið samþykktir.“
Bjarkey gat ekki staðfest hverjir myndu koma til með að gegna hvaða embætti í ríkisstjórninni.
„Ég veit ekki enn hverjir koma til með að gegna embætti, það kemur bara í ljós á eftir, það var ekki rætt neitt svoleiðis hjá okkur í gær,“ segir Bjarkey.
Flokksráð Vinstri Grænna fundaði í gær og var þá stjórnarsáttmálinn ræddur. „Við erum alveg grjóthörð á því að láta ekkert leka út frá okkur hvað varðar það sem í honum stendur,“ segir Bjarkey.
„Við fórum alveg í gegnum hann í gær og það var það sem við vorum að samþykkja, við vorum í rauninni ekki að samþykkja neina ráðherraskipan eða neitt því það gerir bara þingflokkur,“ segir Bjarkey.
Þingflokkur Framsóknar fundar líkt og þingflokkur Vinstri Grænna klukkan ellefu í þinghúsinu um ráðherraval. Að sögn Ingveldar Sæmundsdóttur, aðstoðarmanns Sigurðar Inga Jóhanssonar, formanns Framsóknarflokksins, verður þó ekkert hægt að gefa upp um ráðherraskipan fyrr en síðar í dag.