Willum verður heilbrigðisráðherra

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir verður áfram forsætisráðherra, Willum Þór Þórsson verður heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir verður ráðherra í matvæla-, sjávarútvegs-, og landbúnaðarráðuneytinu og Guðmundur Ingi Guðbrandsson verður félags- og vinnumálaráðherra.

Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson verður ráðherra í innviðaráðuneyti en þar innan verða samgöngu-, sveitarstjórnar- og húsnæðis- og skipulagsmál. Ásmundur Einar Daðason verður ráðherra í nýju skólamála- og barnaráðuneyti, Lilja Dögg Alfreðsdóttir verður ráðherra í viðskipta- og menningarráðuneyti með ferðaþjónustu og skapandi greinar.

Sjálfstæðisflokkurinn verður með fjármálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Einnig verður hann með ráðuneyti sem verður einskonar framtíðarráðuneyti, sagði Sigurður Ingi í Bylgjufréttunum. 

RÚV greinir frá því að Jón Gunnarsson verði dómsmálaráðherra, Bjarni Benediktsson áfram fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verði utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra nýsköpunar, iðnaðar- og háskóla. 

Bjarni Benediksson greindi frá því í hádegisfréttum RÚV að Guðrún Hafsteinsdóttir muni í síðasta lagi taka við af Jóni Gunnarssyni sem dómsmálaráðherra eftir 18 mánuði. 

Sigurður Ingi Jóhansson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson.
Sigurður Ingi Jóhansson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka