Katrín Jakobsdóttir verður áfram forsætisráðherra, Willum Þór Þórsson verður heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir verður ráðherra í matvæla-, sjávarútvegs-, og landbúnaðarráðuneytinu og Guðmundur Ingi Guðbrandsson verður félags- og vinnumálaráðherra.
Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Sigurður Ingi Jóhannsson verður ráðherra í innviðaráðuneyti en þar innan verða samgöngu-, sveitarstjórnar- og húsnæðis- og skipulagsmál. Ásmundur Einar Daðason verður ráðherra í nýju skólamála- og barnaráðuneyti, Lilja Dögg Alfreðsdóttir verður ráðherra í viðskipta- og menningarráðuneyti með ferðaþjónustu og skapandi greinar.
Sjálfstæðisflokkurinn verður með fjármálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Einnig verður hann með ráðuneyti sem verður einskonar framtíðarráðuneyti, sagði Sigurður Ingi í Bylgjufréttunum.
RÚV greinir frá því að Jón Gunnarsson verði dómsmálaráðherra, Bjarni Benediktsson áfram fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verði utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra nýsköpunar, iðnaðar- og háskóla.
Bjarni Benediksson greindi frá því í hádegisfréttum RÚV að Guðrún Hafsteinsdóttir muni í síðasta lagi taka við af Jóni Gunnarssyni sem dómsmálaráðherra eftir 18 mánuði.