Andrés Magnússon
„Ég er ekki að fara að hjóla eitthvað í Eyþór,“ segir Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi, sem vill leiða lista Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. „Ég er bara að bjóða mig fram til forystu. Hann gerir það líka og svo gefst kjósendum kostur á að velja á milli.“
Hún segir þau Eyþór Arnalds oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn vera góða félaga og á einu máli um að eiga drengilega kosningabaráttu, málefnalega og uppbyggilega. Þetta kemur fram í viðtali Hildi í Dagmálum, netstreymi Morgunblaðsins sem opið er öllum áskrifendum. Þáttinn allan má sjá með því að smella hér.
Hildur telur að minnihlutinn í borgarstjórn hafi verið duglegur og gagnrýninn á óstjórn meirihluta Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Hún segir að hins vegar hafi sjálfstæðismenn leitast við að vanda málflutning sinn. „Við höfum reynt að vera málefnaleg og ekki talað neina vitleysu.“
Hún rekur fjölda mála hjá borginni, sem séu mjög gagnrýnisverð og segir sjálfstæðismenn ekki hafa dregið af sér við það um leið og þeir hafi lagt fram lausnir. Hildur segir að þau mál tengist mörg og varði flest borgarbúa alla. Til dæmis um það nefnir hún leikskólamálin, sem varði miklu fleiri en foreldra barna á leikskólaaldri.
„Þetta hefur víðtæk áhrif á borgina alla og samfélagið allt, á fólk og á atvinnyrekstur. Þetta er risastórt hagsmunamál að leysa og ég er ekki að segja að það sé einfalt. En það þarf að leysa það.“