Nýjar áherslur á góðum grunni

Sigríður Hulda Jónsdóttir.
Sigríður Hulda Jónsdóttir.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ og varaformaður bæjarráðs, sækist eftir efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Þar er mögulega um bæjarstjórastólinn að tefla, en sjálfstæðismenn hafa haldið meirihluta þar frá upphafi.

Hún hefur hefur verið bæjarfulltrúi frá 2014, en hefur þar fyrir utan víðtæka reynslu úr atvinnulífi og rekur eigið fyrirtæki í fræðslu og stjórnendaráðgjöf.

Sigríður Hulda segir í viðtali við Morgunblaðið að hún vilji byggja á þeim grunni sem lagður hafi verið, þó nýjum stjórnendum fylgi jafnan nýir straumar og áherslur.

„Garðabæ hefur verið vel stýrt og staða bæjarins er góð. Þó er vissulega rými fyrir nýjar áherslur og það væri spennandi að fylgja þeim eftir með bæjarbúum. Bærinn er góður, því fólkið sem býr þar gerir hann góðan.“

Sigríður Hulda kveðst vilja nýja nálgun sem efli mannlífið í bænum, það sé raunhæft undir áframhaldandi ábyrgri fjármálastjórn með lágum álögum á íbúa og fyrirtæki. Hún nefnir íbúalýðræði eftir nýjum leiðum, eflingu sameiginlegra svæða í þágu útivistar og mannlífs, svo sem miðbæjarkjarna og bæjargarð, nútímalegri þjónustu fyrir íbúa á öllum aldri, eflingu skólastarfs og fjölbreyttara íþrótta-, tómstunda- og menningarstarfs fyrir alla aldurshópa, frumleika í skipulags- og samgöngumálum og aukna áherslu á umhverfismál.

Nú er farsæll bæjarstjóri senn að láta af embætti, ætlarðu að feta í fótspor hans eða feta nýja slóð?

„Ég er núna að bjóða mig fram í 1. sæti í prófkjöri. Þegar niðurstaða þess liggur fyrir í byrjun mars tökum við stöðuna og sjáum hvert hún leiðir okkur. Þegar nýr stjórnandi kemur inn fylgir honum yfirleitt ferskleiki, nýir straumar og áherslur, en á sama tíma er yfirleitt skynsamlegt að byggja einnig á traustum grunni sem fyrir er.“

En hverjar yrðu helstu áherslurnar?

„Ég vil nýja nálgun sem eflir mannlífið í bænum því það tengist öllum þáttum bæjarlífsins. Þetta er raunhæft undir áframhaldandi ábyrgri fjármálastjórn með lágum álögum á íbúa og fyrirtæki. Mannlífið skapar töfrana í bæjarfélagi,“ segir Sigríður Hulda.

„Ég vil að við virkjum samtalið og íbúalýðræði eftir nýjum leiðum. Það tryggir öryggi, fjölbreytileika og valkosti. Að við eflum sameiginleg svæði í þágu útivistar og mannlífs, s.s. miðbæjarkjarna og bæjargarð – nýtum betur mannvirki t.d. í gegnum frjáls félagasamtök. Ég vil að við verðum nútímalegri í þjónustu, svo íbúar á öllum aldri hafi val um skilvirka þjónustu tengda ólíkum rekstrarformum.

Að við verðum fjölskyldu- og skólabær í fremstu röð, þar sem skólastarf byggir á styrkleikum, mennsku og tækni. Tryggjum fjölbreyttara íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf fyrir allan aldur. Verðum frumleg í skipulags- og samgöngumálum og bjóðum upp á öflugar tengingar og nútímalega valkosti og að við gerum betur í umhverfismálum, sjálfbærni og tengingum við ósnortna náttúru.“

Þú ert með bakgrunn í skólasamfélaginu, myndi það endurspeglast sérstaklega með þig í forystunni?

„Já, klárlega. Skólamálin eru fjölskyldumál og grundvöllur lífskjara til framtíðar. Þau eru því lykiláhersla fyrir velferð bæjarbúa og samfélagsins alls. Garðabær á með afgerandi hætti að vera skólabær í fremstu röð með áherslu á metnaðarfullt fagfólk, val nemenda og forráðamanna um skóla, ungbarnaleikskóla, aðlaðandi vinnuumhverfi, ólík rekstrarform og öflugan þróunarsjóð.

Heildstæð þjónusta við börn frá eins árs aldri og öflug samvinna skólastiga skapar öryggi og samfellu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Það er mikilvæg þjónusta fyrir barnafjölskyldur að fá leikskólapláss þegar barnið er orðið eins árs. Það skapar öryggi varðandi vinnu foreldra, vellíðan barnsins og þar með hagsmuni fjölskyldunnar og samfélagsins. Þetta er mikilvæg sérstaða hjá Garðabæ og mun meiri þjónusta við barnafólk en í flestum sveitarfélögum i nágrenni okkar.

Það er ásókn í Garðabæ, viltu stækka bæjarfélagið örar?

„Það er ásókn í Garðabæ af því að þar er gott að búa. Hér eru góðir skólar, öflug íþrótta- og félagasamtök og góður bæjarbragur,“ segir Sigríður Hulda.Aðalatriðið er að bæjarbúum líði vel og við stækkun bæjarfélags er mikilvægt að gæta að rekstrinum, halda í bæjarbraginn, öflugt mannlíf, skilvirkar tengingar milli hverfa og þjónustu sem virkilega virkar.

Bærinn hefur stækkað nokkuð ört og ný svæði eru bæði komin í framkvæmd, eins og Vetrarmýrin, og að fara í framkvæmd, eins og miðsvæði Álftaness. Við leggjum áherslu á fjölbreytt húsnæðis- og búsetuform fyrir ólíka hópa. Sum hverfi einkennast af þéttleika og nálægð við almenningssamgöngur á meðan önnur hverfi eru lágreistari, einkennast af dreifðri byggð og nálægð við náttúruna. Þetta blandaða búsetuform einkennir bæinn og skapar íbúum valfrelsi,  tækifæri til að velja búsetuform sem hentar þeim best.

Í aðalskipulagi Garðabæjar er áætlað að árið 2030 verði íbúafjöldinn í Garðabæ orðinn á bilinu 18–25.000 manns. Fræðimenn hafa rýnt hver sé ákjósanleg stærð af samfélagi þannig að þjónusta sé öflug en um leið haldist samkennd, nánd og lýðræði og er þá gjarnan talað um íbúafjölda í kringum 25-35.000 manns.“

Hvaða áskoranir eru helstar í bæjarfélaginu á komandi kjörtímabili?

„Bæjarfélagið er stækkandi og því þarf að tryggja samheldni og gott mannlíf innan þess. Einnig skilvirkar tengingar milli hverfa, við náttúruna og önnur bæjarfélög bæði fyrir gangandi, hjólandi, akandi og þá sem kjósa almenningssamgöngur.

Í stækkandi bæjarfélagi eru miklar framkvæmdir og lykilatriði er að gæta vel að rekstrinum en vera á sama tíma framsækin og frumleg í nálgunum s.s. vegna umhvefisvænna lausna, snjalltækni og skipulags.

Við erum að taka í notkun nýtt stórglæsilegt fjölnota íþróttahús og það verður spennandi að upplifa hvernig það bætir mannlífið og tækifæri okkar í bænum. Það er líka áskorun að nýta það sem best fyrir bæjarbúa, allan aldur og iðkendur ólíkra greina. Við erum öll að eldast og ég tel nauðsynlegt að koma til móts við þarfir eldri borgara sem er innbyrðis ólíkur hópur með mismunandi þarfir. Ég vildi sjá heilsumiðju sem býður upp á fjölbreyttari form á rekstri heilsugæslu, þjálfunar og ræktar fyrir líkama og sál.“

Sigríður Hulda hefur opnað vef á sigridurhuldajons.is þar sem kynna má sér stefnumál hennar og bakgrunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert