Sjálfgefið að Dagur heldur áfram

Nánast er gefið að Dagur B. Eggertsson haldi áfram sem oddviti Samfylkingarinnar í komandi kosningum í Reykjavík. Ekkert í framgöngu hans að undanförnu gefur annað til kynna. Það er samdóma álit Stefáns Pálssonar og Friðjóns Friðjónsonar, sem fram kemur í Dagmálum Morgunblaðsins.

Þeir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og atkvæðamaður í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og Friðjón R. Friðjæonsson, almannatengill og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, fjalla um stöðu og horfur í Reykjavíkurborg í aðdraganda borgarstjórnarkosninga í viðtali í Dagmálum. Dagmál eru streymi á netinu, sem opið er öllum áskrifendum. Þáttinn í heild sinni má sjá eða hlusta á með því að smella hér.

„Ég hef bara alltaf tekið því sem gefnu,“ segir Stefán. „Þetta er mjög dæmigerð hegðun stjórnmálamanns sem er að halda áfram. Gefa út bók, láta þess getið í kynningu á bókinni í upptaktinum að hann líti svo á að starf sitt sé rétt hálfnað og þar fram eftir götum.“

Stefán játaði þó að sumt í bók Dags væri á þá leið sem menn væru vanari frá stjórnmálamönnum, sem væru hættir. „En mér finnst ekkert varðandi framsetninguna á þessari bók, kynninguna, umræðuna í kringum hana, bera með sér annað en að hann væri að halda áfram.“

Friðjón tekur undir þetta og telur að hugmyndin um 12 ára óslitinn borgarstjóraferill reynist Degi ómótstæðileg. Hins vegar séu vissulega fleiri leikir í stöðunni hafi hann áhuga á að taka að sér forystuhlutverk í Samfylkingunni eða gefa sig að landsmálum í aðdraganda þingkosninga, sem fara eiga fram 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert