Ármann sækist ekki eftir endurkjöri

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, hefur ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fer fram í mars. 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Ármann sendi frá sér. Hún er svohljóðandi:

„Á fundi kjörnefndar Sjálfstæðisfélagsins í Kópavog í gærkvöldi skýrði ég nefndinni frá því að ég myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi þann 12. mars n.k. vegna komandi sveitarstjórnarkosninga.

Síðustu 25 ár hef ég helgað mig bæjarmálunum í Kópavogi. Ég var kjörinn bæjarfulltrúi árið 1998 og hef verið bæjarstjóri frá árinu 2012 en ég tel nú tímabært að stíga til hliðar og að annar taki við keflinu.

Á þeim tíma sem ég hef starfað í bæjarmálunum hefur Kópavogur tekið miklum breytingum þar sem fjöldi íbúa í bænum hefur tvöfaldast og telur nú um 40.000 manns. Ég er stoltur af því að hafa starfað með Sjálfstæðisflokknum í gegnum þær umbreytingar sem hafa átt sér stað í Kópavogi og hafa leitt flokkinn síðustu 12 ár. Ég hef ávallt haft þá sýn að góður rekstur og ábyrg fjármálastjórn sé undirstaða blómlegs vaxtar bæjarfélagsins og er þeirrar skoðunar að það skýri þá sterku stöðu sem bærinn nýtur núna.

Á þeim tíma sem ég hef setið í bæjarstjórn Kópavogs hef ég kynnst og átt samleið með fjölda fólks. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka Kópavogsbúum öllum, öflugu og góðu starfsfólki Kópavogsbæjar, Sjálfstæðisfólki í Kópavogi fyrir þeirra ómetanlega og óeigingjarna starf, pólitískum fulltrúum allra flokka í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu og þeim fulltrúum fyrirtækja og félagasamtaka sem ég hef kynnst og unnið með í gegnum tíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert