„Nú mun nýr kafli taka við, þar sem ég hef ákveðið að sækjast hvorki eftir því að gegna starfi sveitarstjóra að afloknum sveitarstjórnarkosningum í vor, né bjóða mig fram til setu í sveitarstjórn,“ skrifar Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, í færslu á Facebook.
„Þrátt fyrir allt, og sem hvatning til allra þeirra sem vilja hafa áhrif á ákvarðanatöku í sínu sveitarfélagi vil ég segja þetta; Með þátttöku í staðbundnum stjórnmálum getur falist dýrmæt gjöf til persónulegs þroska og ómetanlegrar reynslu,“ skrifar Kristján.
Kristján segist bæði þakklátur og stoltur að hafa notið trausts til að vera í forsvari fyrir sveitarfélagið undangengin átta ár og að hann eigi erfitt með að ímynda sér að fjölbreyttara starf finnist en starf sveitarstjóra. „Árin átta hafa liðið á ógnarhraða og magnaðir uppbyggingartímar sveitarfélagsins Norðurþings verið í senn gefandi og krefjandi,“ skrifar Kristján.
Kristján segir spennandi tíma framundan en í maí kjósa íbúar fulltrúa til að fara með stjórn sveitarfélaganna. „Sveitarstjórnarvettvanginn þarf áfram að efla og tryggja að fleira fólk sækist eftir þátttöku í stjórnmálum. Þótt ýmsum jákvæðum breytingum hafi verið komið á víða m.t.t. kjara og starfsaðstæðna kjörinna fulltrúa þarf meira til. Það er ekki svo að óvægin umræða, úthrópanir og persónuníð á opinberum vettvangi í garð sveitarstjórnarfólks auki áhuga eða úthald fólks í stjórnmálum. Slíkt hljótum við að geta sammælst um að frábiðja okkur,“ skrifar hann.
„Ég mun ganga sáttur og stoltur frá borði að kosningum loknum og vænti þess að ný sveitarstjórn haldi áfram á braut uppbyggingar og sóknar. Í Norðurþingi eru allar forsendur til að horfa björtum augum til framtíðar, á grunni öflugrar viðspyrnu sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins á undanförnum árum,“ skrifar Kristján.