Margrét Sanders, oddviti sjálfstæðismanna, býður sig fram í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.
Þetta segir í tilkynningu sem send var á fjölmiðla.
Ákveðið var á fundi fulltrúaráðs í gær að halda skyldi prófkjör fyrir uppröðun lista flokksins fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor. Studdi Margrét þá tillögu og gaf jafnframt yfirlýsingu um að hún myndi áfram gefa kost á sér í oddvitasæti á lista flokksins í Reykjanesbæ.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið í meirihluta í bæjarstjórn í síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Margrét er rekstrarráðgjafi og einn af eigendum fyrirtækisins Strategíu. Hún var formaður Samtaka verslunar og þjónustu í fimm ár og framkvæmdastjóri og eigandi hjá Deloitte í 17 ár. Þá hefur hún einnig stundað kennslu í 15 ár.
„Áhersla okkar er að auka tekjur sveitarfélagsins með öflugra atvinnulífi í stað þess að hækka skatta. Reykjanesbær er eitt af stærstu sveitarfélögum landsins með góða innviði og öflugt mannlíf. Stórt og öflugt sveitarfélag eins og Reykjanesbær á bæði að vera samkeppnishæft fyrir atvinnuuppbyggingu, í skólamálum og líka gott samfélag með framúrskarandi þjónustu fyrir fólk á öllum aldri. Áherslan þarf að vera á að sveitarfélagið og ýmiskonar íþrótta-, menningar- og félagastarfssemi sé leiðandi á landsvísu, gangi í takt og eflist til þess að skapa góða umgjörð um öflugt mannlíf og skemmtilegan bæjarbrag,“ er haft eftir Margréti í tilkynningunni.