Þorkell Sigurlaugsson hyggst bjóða sig fram í væntanlegu prófkjöri sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Hann sækist eftir 2. til 3. sæti.
Þorkell hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og háskólastarfi og hefur auk þess verið virkur þátttakandi í málefnastarfi Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár þar sem hann er formaður velferðarnefndar flokksins.
Þorkell kveðst með framboðinu vilja taka virkan þátt í mikilvægum breytingum sem Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera á rekstri og fjármálastjórn Reykjavíkurborgar. „Að halda áfram á næsta kjörtímabili óbreyttri vegferð með núverandi borgarstjóra og borgarstjórn mun festa í sessi mörg verkefnitil tjóns fyrir fólk og fyrirtæki í borginni, t.d. á sviði skipulags- samgöngu- og húsnæðismála svo dæmi séu tekið.“
Hann hyggst leggja sérstaka áherslu á velferðarmál, skipulagsmál, samgöngumál og atvinnumál. Þar skortir alla langtímasýn á framtíðarþróun borgarinnar með öflugt hlutverk í atvinnulífs-og samfélagsþróun 21. aldar í huga. „Nýsköpun og öflugt menntakerfi á öllum skólastigum, atvinnulíf og velferðarsamfélag á tímum 4. iðnbyltingarinnar mun skipta miklu máli,“ segir hann í tilkynningu um framboð sitt.
„Sjálfstæðisflokkurinn á að leggja áherslu á að nýta öflugt hugviti og athafnasemi borgarbúa og aðlaðandi umhverfi fyrir fólk og fyrirtæki. Þannig er hægt að gera Reykjavík að fyrirmyndarborg með vöxt og velferð íbúanna leiðarljósi.“
Þorkell er viðskiptafræðingur og starfaði fram til ársins 2004 sem framkvæmdastjóri hjá Eimskip og var í lykilhlutverki við ýmsar fjárfestingar félagsins bæði í flutningastarfsemi og á öðrum sviðum.
Árið 2004 skipti hann um starfsvettvang og tók við starfi sem framkvæmdastjóri fasteignareksturs og síðan einnig fjármála hjá Háskólanum í Reykjavík. Hann var stjórnarmaður og síðar formaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands frá stofnun. Þá hefur Þorkell setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja m.a margra nýsköpunarfyrirtækja á uppgangsáraum þeirra svo sem Marel og Össurar.
Þorkell hefur einnig látið sig varða málefni hreyfihamlaðra og var á árunum 2008-2014 formaður stjórnar Sjálfsbjargarheimilisins sem rekið er af Sjálfsbjörg, landsambandi hreyfihamlaðra.