Tækifæri sem kemur varla aftur

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segir það hafa gefið sér ótrúlega mikið að fá áskoranir um að gefa kost á sér til að leiða lista flokksins í Rangárþingi ytra í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Ekki liggur fyrir hvenær prófkjör flokksins verður, en væntanlega verður það um næstu mánaðamót. „Þá þarf ég að vera búinn að ákveða hvað ég ætla að gera,“ segir Ásmundur, en Eyjar.net greindu frá málinu í gær.

Hann kveðst alla tíð hafa verið jákvæður fyrir því að flytja sig yfir á vettvang sveitarstjórnarmála á þeim níu árum sem hann hefur setið á Alþingi. Slíkt hafi komið upp á þingferlinum en af ýmsum ástæðum hafi ekkert orðið af því. Áður en hann settist á þing var hann bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs á árunum 2009 til 2012. 

Ásmundur á Alþingi ásamt Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur á Alþingi ásamt Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú þarf ég að taka þessa ákvörðun því þetta tækifæri kemur væntanlega ekki aftur á lífstíðinni, því það styttist í starfsaldrinum,“ segir Ásmundur, sem er 66 ára. Ætlar hann að melta hlutina með stuðningsfólki sínu með hagsmuni Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra að leiðarljósi.

Spurður segist hann þekkja vel til í sveitarfélaginu og þar eigi hann sumarhús. „Konan mín er ættuð úr sveitinni og maður var í sveit á næstu grösum, þannig að maður þekkir þetta mjög vel og er nánast heimamaður,“ segir hann og bætir við að hann eigi sterkan stuðningsmannakjarna í kjördæminu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert