Ásdís vill verða bæjarstjóri í Kópavogi

Ásdís Kristjánsdóttir.
Ásdís Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarfram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, ætlar að gefa kost á sér í fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ásdísi, sem hefur undanfarin átta ár starfað hjá Samtökum atvinnulífsins. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fer fram 12. mars en áður hafði Kar­en Elísa­bet Hall­dórs­dótt­ir bæj­ar­full­trúi greint frá því að hún sækist eftir fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Ármann Kr. Ólafs­son, bæj­ar­stjóri Kópa­vogs, hef­ur ákveðið að sækj­ast ekki eft­ir end­ur­kjöri í próf­kjörinu.

Kópavogur er í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi. Mig langar til að leggja mitt af mörkum til að tryggja að svo verði áfram, með því að leggja áherslu á traustan fjárhag, framúrskarandi þjónustu og skýra framtíðarsýn fyrir alla bæjarbúa. Þess vegna sækist ég eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum í vor,“ segir meðal ananas í tilkynningu Ásdísar.

Bættar samgöngur í takt við vaxandi bæ

Hún segir ábyrgan rekstur forsendu þess að unnt sé að veita lipra, sveigjanlega og góða þjónustu sem mæti ólíkum þörfum fólks en um leið verði að leita allra leiða til að stilla gjöldum og álögum á fólk og fyrirtæki í hóf.

Fram undan eru áhugaverð uppbyggingarverkefni í bænum og mikilvægt að vanda vel til verka, tryggja samstöðu og sátt meðal bæjarbúa og húsnæði fyrir fólk á öllum ævistigum. Samgöngur skipta okkur öll máli, hvort sem við erum gangandi, á hjóli eða í bíl. Ég vil bættar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífstíl í takt við vaxandi bæ,“ segir Ásdís sem er bæði hagfræði- og verkfræðimenntuð.

Hún er gift Agnari Tómasi Möller verkfræðingi og saman eiga þau þrjú börn á grunnskólaaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert