Guðmundur Fylkison, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 5.-6. sæti lista Framsóknarflokksins í Hafnafirði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Hann lýsir þessu yfir á Facebook-síðu sinni í morgun.
Guðmundur hefur sem kunnugt sérhæft sig í leit að ungmennum í störfum sínum fyrir lögregluna. Hann segist í pistli sínum vera „Framsóknarmaður inn við beinið“ og vilji freista þess að koma meira að störfum innan flokksins.
„Síðustu 4 ár hef ég fengið að starfa fyrir Framsókn í Hafnarfirði. Annars vegar sem aðalmaður í Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins og hins vegar sem vara- og síðan aðalmaður í hafnarstjórn. Það hefur verið gaman að taka þátt í uppbyggingu hafnarinnar og þeim breytingum sem eru að eiga sér stað á hafnarsvæðinu. Það eru spennandi tímar framundan hjá höfninni eins og annars staðar í Hafnarfirði og langar mig að taka áfram þátt í þeirri þróun. Af þeirri ástæðu hef ég tekið þá ákvörðun um að bjóða mig fram í 5.-6. sæti á lista Framsóknar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor," ritar Guðmundur m.a. en hann hefur verið búsettur í Hafnarfirði frá árinu 1998. Er að uppruna til frá Ísafirði.