Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir marga hafa hvatt sig til að gefa kost á sér í fyrsta sætið í prófkjöri fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
„Ég hef verið að fá hvatningu og hún er að koma víða að. Ég hef hitt þá sem eru að hvetja mig áfram og rætt málin og er bara að ígrunda það,“ segir Marta. Hún segist mjög þakklát fyrir þann stuðning sem hún finni fyrir og kveðst ætla að gera upp hug sinn fljótlega.
„Ég vil taka málið til gaumgæfilegrar athugunar og þá í samráði við mína fjölskyldu og mitt bakland, þar sem þetta er stór ákvörðun sem maður tekur ekki einn,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.
Þegar hefur Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi boðið sig fram til oddvitasætis í prófkjöri flokksins. Eyþór Arnalds, sitjandi oddviti, hefur sagst ekki munu gefa kost á sér til áframhaldandi forystu.