Elín Björk Jónasdóttir, formaður Reykjavíkurfélags Vinstri grænna og hópstjóri veðurþjónustu Veðurstofu Íslands, býður sig fram í fyrsta sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Frá þessu greinir hún á Facebook-síðu sinni.
Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, og Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi, sækjast einnig eftir því að leiða listann. Ljóst er að baráttan um oddvitasætið verður spennandi.
„Málefni VG eru mér hjartans mál. Þar hef ég mest látið mig varða loftslags- og náttúruverndarmál, en húsnæðismál, skólamál og skipulagsmál eru líka ofarlega á áhugasviði mínu,“ segir Elín.
Þá tekur hún fram að á meðan forvalinu stendur muni hún stíga til hliðar sem formaður Reykjavíkurfélags Vinstri grænna.