Sjálfstæðismenn stefna á prófkjör í Reykjavík

Sjálfsstæðismenn efna til prófkjörs í borginni.
Sjálfsstæðismenn efna til prófkjörs í borginni. mbl.is/Arnþór

Stjórn Varðar, fulltúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, ákvað á fundi sínum í kvöld að leggja til við fulltrúaráðið að haldið verði prófkjör fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Enn fremur var lagt til að það verði haldið um miðjan mars, og að kjörskrá verði lokað tveimur vikum fyrr.

Þetta herma heimildir mbl.is.

Í tilkynningu sem síðan hefur borist frá Verði segir að stjórnin hafi ákveðið að boða til fulltrúaráðsfundar í Valhöll fimmtudaginn 10. febrúar.

Verður þessi ákvörðun stjórnarinnar þar borin undir fulltrúaráðið.

Á fundi Varðar um miðjan desember var samþykkt að leggja fyr­ir full­trúaráðið að ekki yrði farið í hefðbundið próf­kjör við val á lista fyr­ir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar í vor, held­ur yrði ráðist í leiðtoga­próf­kjör. Sú ákvörðun var gagnrýnd af ýmsum flokksmönnum og borgarfulltrúum.

Borgarfulltrúarnir Katrín Atladóttir og Eyþór Arnalds munu ekki bjóða sig fram en búist er við að flest aðrir núverandi borgarfulltrúar flokksins gefi aftur kost á sér.

Hildur Björnsdóttir er eini borgarfulltrúinn sem hefur gefið út framboðstilkynningu og sömuleiðis sú eina sem hefur boðið sig fram í oddvitasætið.

Eins og mbl.is greindi frá í vikunni íhugar Marta Guðjóns­dótt­ir borg­ar­full­trúi að gefa kost á sér gegn Hildi.

Þá hafa Helga Mar­grét Marzellíus­ar­dótt­ir og Þorkell Sig­ur­laugs­son gefið út framboðstilkynningu. Helga sækist eftir 5. sæti en Þorkell eftir 2. til 3. sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert