Diljá Ámundadóttir Zoëga hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík og stefnir á 3. sætið á lista. Hún er fyrsti varaborgarfulltrúi Viðreisnar og hefur átt sæti í ráðum og nefndum á núverandi kjörtímabili.
Diljá situr í Skóla- og frístundaráði, Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði, Ofbeldisvarnarnefnd, Íbúaráði Miðborgar og Hlíða og er formaður Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Þar fyrir utan hefur hún setið í stýrihópum á kjörtímabilinu m.a. Um bætt starfsumhverfi leikskóla og jafnlaunastefnu. Diljá er með BA gráðu frá KaosPilot-skólanum, MBA gráðu frá HR og diplóma á meistarastigi í sálgæslufræðum frá EHÍ.
Helstu áherslur hennar eru meðal annars barnamál, en Diljá vill að horft sé til barna þegar sköpuð sé skýr framtíðarsýn fyrir borgina. Hún segist ætla að beita sér fyrir að stytta biðlista, auka aðgengi barna að geðheilbrigðisþjónustu/sálfræðiþjónustu, sem og að flétta mennta- og velferðarkerfunum saman í einstaklingsmiðaðan stuðning.
„Ég vil hlúa að einfaldara hversdagslífi fyrir fjölskyldur og skapa aðgengilegri farveg fyrir atvinnurekendur og frumkvöðla. Með stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar opnast ótal tækifæri fyrir einfaldari, aðgengilegri og betri þjónustu fyrir alla borgarbúa. Fækkun skrefa í þjónustuferlum felur í sér tímasparnað og streituminnkun.“ er haft eftir henni í tilkynningu.