Kjartan Magnússon, varaþingmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna komandi borgarstjórnarkosninga.
Prófkjörið fer fram um miðjan mars næstkomandi.
„Með framboðinu býð ég fram krafta mína og reynslu í þágu Reykvíkinga. Brýnt er að ráðast í veigamiklar umbætur þar sem vinstri meirihlutinn stendur illa að rekstri borgarinnar og stjórnun mikilvægra málaflokka er afar ábótavant. Færa þarf áherslur borgarinnar frá ýmsum gæluverkefnum núverandi meirihluta til grunnþjónustu,“ segir Kjartan.
„Mjög hefur sigið á ógæfuhliðina í fjármálum og eru skuldir nú komnar yfir 400 milljarða króna, sem jafngildir tólf milljónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni. Greiðsluþrot er fyrirsjáanlegt hjá borginni ef haldið verður áfram á braut óráðsíu og skuldasöfnunar. Auk fjármálanna má nefna húsnæðismál, samgöngumál, skipulagsmál og viðhaldsmál. Þá eru umbætur í skólamálum og málefnum eldri borgara aðkallandi.“
Kjartan segir mikilvægt að komandi prófkjör verði nýtt til að velja samhentan hóp frambjóðenda.
„Sá hópur þarf að hafa skýra sýn á þjónustu og rekstur borgarinnar og kjark til að taka erfiðar ákvarðanir. Ég starfaði lengi sem borgarfulltrúi og gjörþekki því málefni borgarinnar frá fyrstu hendi. Þá gegndi ég starfi framkvæmdastjóra hjá Evrópuráðinu 2019-21, öðlaðist þar frekari reynslu og kynntist ýmsum nýmælum í sveitarstjórnarmálum á alþjóðavettvangi. Endurskoða verður þjónustu og rekstur Reykjavíkurborgar frá grunni og gera margvíslegar breytingar til hins betra. Ég tel að reynsla mín og þekking muni nýtast vel í því mikilvæga verkefni,“ segir Kjartan.
Helstu stefnumál Kjartans:
- Skipulagsmál. Horfið verði frá lóðaskortstefnu með stórfelldri aukningu lóðaframboðs í nýjum hverfum. Við þróun eldri hverfa verði áhersla lögð á sátt við íbúa. Horfið verði frá ofuráherslu á mikið byggingarmagn og offorsi sem einkennt hefur þéttingartrúboð vinstri meirihlutans í borgarstjórn.
- Eign fyrir alla! Sem flestum verði gert kleift að eignast eigið húsnæði. Með stórauknu lóðaframboði og lækkun lóðaverðs skapast skilyrði til að lækka íbúðaverð.
- Greiðar götur og öruggar samgöngur. Ráðist verði í tímabærar samgönguframkvæmdir í Reykjavík, t.d. bætta ljósastýringu og mislæg gatnamót, sem stórauka umferðaröryggi, draga úr mengun og greiða fyrir umferð.
- Borgarlínuskatt – Nei takk! Ekki kemur til greina að þyngja skattbyrði Reykvíkinga frekar en orðið er. Hafna ber öllum hugmyndum um nýjan skatt á Reykvíkinga til að fjármagna svokallaða borgarlínu, verkefni upp á a.m.k. 100 milljarða króna.
- Ekki verði þrengt frekar að Reykjavíkurflugvelli á meðan ekki finnst annar góður flugvallarkostur á höfuðborgarsvæðinu og ríkið kýs að hafa þar miðstöð sjúkraflugs, björgunarflugs og innanlandsflugs.
- Stöðvum sjálfvirka hækkun Reykjavíkurskattsins! Vinda þarf ofan af hömlulausum hækkunum á fasteignaskatti, sem Reykvíkingar hafa fengið yfir sig á undanförnum árum. Miklar hækkanir á fasteignaverði hafa leitt af sér stórhækkun fasteignaskatta og spáð er enn frekari hækkunum á næstu árum. Þar sem húsnæðisverð er langhæst í Reykjavík, kemur skatturinn mun harðar niður á Reykvíkingum en öðrum landsmönnum. Hann er því sannkallaður Reykjavíkurskattur.
- Sundabraut sem fyrst! Reykjavíkurborg standi við gerða samninga um Sundabraut og greiði fyrir lausn verkefnisins í stað þess að standa í vegi fyrir því eins og vinstri meirihlutinn gerir leynt og ljóst.
- Fjármál. Stórbæta þarf rekstur borgarinnar með sparnaði, hagræðingu og aukinni stærðarhagkvæmni.
- Fækkun borgarfulltrúa. Við hagræðingu sýni borgarstjórn gott fordæmi og beiti sér fyrir því að borgarfulltrúum verði fækkað á ný. 53% fjölgun þeirra sl. fjögur ár hefur engu skilað nema vaxandi kerfiskostnaði og aukinni óráðsíu í rekstri borgarinnar.
- Skólamál. Efla þarf upplýsingagjöf frá skólum til heimila um frammistöðu nemenda og taka upp einkunnakerfi, sem nemendur og foreldrar skilja.