Hjördís gefur kost á sér í 2. sætið

Hjördís Ýr Johnson vill 2. sætið.
Hjördís Ýr Johnson vill 2. sætið.

Hjördís Ýr Johnson gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi 12. mars.

Hjördís hefur setið í bæjarstjórn Kópavogs frá árinu 2014 og jafnframt í framkvæmdastjórn bæjarins allan þann tíma. Hennar áhersla er á ábyrgan og traustan rekstur um leið og haldið er uppi öflugu þjónustustigi bæjarins.

Í tilkynningu segir að sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar hafi Hjördís sett í forgang að bæta umferðaröryggi barna, stækka göngu- og hjólastígakerfi bæjarins, koma á hreinsunarátaki á atvinnusvæðum og samræma lausnir í flokkun á sorpi.

Vill hraða uppbyggingu skóla- og vegamannvirkja

Fram kemur að í ljósi traustrar fjárhagsstöðu bæjarins vill Hjördís hraða uppbyggingu skóla- og vegamannvirkja. Markmiðið sé að flýta byggingu leikskóla og bjóða yngri börnum leikskólavist ásamt því að stækka grunnskólana í þéttingarhverfum bæjarins.

Hjördís hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu. Hún er framleiðslustjóri StudioM, framleiðsludeildar Árvakurs. Áður hafði hún séð um markaðsmál Árvakurs, verið útsendingarstjóri frétta á Stöð 2 og dagskrárframleiðandi hjá Stöð 2 og Skjá einum. Auk þess hefur hún starfað og tekið þátt í uppbyggingu Nordic Photos.

Hjördís er með BA-gráðu í fjölmiðlun og sjónvarpsþáttagerð frá Emerson College í Boston og stundaði meistaranám í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert