Kveðja flokkinn eftir „óheiðarlega“ kosningabaráttu

Hvorki Kolbrún né Kristín munu kjósa flokkinn í vor.
Hvorki Kolbrún né Kristín munu kjósa flokkinn í vor. Samsett mynd

Sjálfstæðiskonurnar og prófkjörsframbjóðendurnir Kol­brún G. Þor­steins­dótt­ir bæjarfulltrúi og Kristín Ýr Pálmarsdóttir varabæjarfulltrúi saka Ásgeir Sveinsson nýkjörinn oddvita sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ um óheiðarlega kosningabaráttu.

„Ég og mín persóna var algjörlega tekin niður í þessu prófkjöri,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is.

Kolbrún bauð sig fram til að leiða listann gegn Ásgeiri en hafnaði í fjórða sæti. Hún skipaði þriðja sæti á lista sfjálfstæðismanna fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar.

Notaði fyrrverandi eiginmann gegn sér

Kolbrún segir Ásgeir hafa notað íþróttahreyfinguna og stóran byggingarverktaka í bænum til að ná þeim árangri sem raun ber vitni.

Þá segir hún Ásgeir einnig hafa notað fjármál fyrrverandi eiginmanns síns gegn sér en að sögn Kolbrúnar enduðu fjármál hans illa vegna stórrar byggingar við Hverfisgötu. 

„Það eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi stöðu nokkurra þarna á listanum. Það er ýmislegt þarna sem hefur verið notað gegn mér sem aðrir á lista hafa komist upp með. Ég var tekin niður fyrir fjármál míns harðduglega fyrrverandi eiginmanns. Það er ýmislegt þarna hjá öðrum frambjóðendum sem er vafasamt og hafa komist upp með.“

Fengið hótunarsímtöl

Kolbrún segir flokkinn hafa algjörlega skipst í tvær fylkingar fyrir prófkjörið en stuðningsmenn Ásgeirs hafi síðustu tvö ár beitt sér harkalega gegn sér.

„Ég hef fengið hótunarsímtöl frá stuðningsmönnum hans síðustu tvö ár. Það var ýmislegt sem gerðist á kjörtímabilinu þar sem að sterkir menn í flokknum hótuðu mér öllu illu ef ég myndi ekki láta mig hverfa. Það var meðal annars ástæða þess að ég þurfti að hætta sem formaður bæjarráðs.“

Kjósa flokkinn ekki í vor

Kolbrún hafnar því að hafa beitt sér óheiðarlega gegn Ásgeiri en sakar hann um að hafa logið slíku upp á sig.

Hún segir að eins og staðan sé núna muni hún ljúka kjörtímabilinu en kveðst ekki ætla að kjósa flokkinn. Kristín Ýr mun aftur á móti ekki ljúka kjörtímabilinu og hefur sagt sig úr flokknum. Hún ætlar ekki að kjósa flokkinn í vor. 

„Ég er að jafna mig eftir harða kosningabaráttu og það er fullt af góðu fólki sem er að yfirgefa flokkinn núna vegna þess að það eru hér ákveðin öfl í bæjarfélaginu sem unnu mjög harkalega gegn mér. Ég hef því engan áhuga á að styðja flokkinn í vor,“ segir Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert