Þórður vill 4. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum

Þórður Gunnarsson.
Þórður Gunnarsson. Ljósmynd/Aðsend

Þórður Gunnarsson sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Þórður er 37 ára og hefur lokið grunnnámi í hagfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnámi í orkuhagfræði við BI Norwegian School of Management í Ósló og IFP Energies Nouvelles í París.

Þórður hefur starfað á ritstjórnum Morgunblaðsins, Viðskiptablaðsins og Fréttablaðsins. Hann vann einnig hjá MP banka (nú Kviku) og dótturfélögum bankans um nokkurra ára skeið, að því er segir í tilkynningu. Jafnframt starfaði Þórður í London í tæplega fimm ár, lengst hjá Standard & Poors Global við greiningar á alþjóðlegum orku- og hrávörumörkuðum.

„Stórar áskoranir bíða við uppbyggingu innviða Reykjavíkur á næstu árum. Samgöngusáttmáli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu kveður á um að uppbyggingu allra samgöngumáta verði sinnt jafnt. Mikilvægt er að skynsemi ráði för í þeirri vegferð. Uppbygging almenningssamganga er góðra gjalda verð og skynsamleg en það ætti ekki að vera alfarið á kostnað annars konar samgangna,“ segir Þórður í tilkynningu.

Lækka þurfi skuldir

„Hins vegar verður erfitt að ráðast í stórtæka uppbyggingu innviða á meðan fjárhagur borgarsjóðs er jafn illa staddur og raun ber vitni. Til að Reykjavíkurborg geti sótt fram af krafti á næstum árum þarf að lækka skuldir samstæðu borgarinnar. Einfaldasta leiðin til þess er að Reykjavíkurborg dragi sig úr rekstri fyrirtækja í samkeppni við einkafyrirtæki.

Með aðkomu einkafjárfesta að slíkum fyrirtækjum væri þá samhliða hægt að losa fjármuni bundna í atvinnurekstri og lækka skuldir borgarinnar. Skemmst er að minnast Gagnaveitu Reykjavíkur í þeim efnum. Einnig mætti nefna Sorpu og Faxaflóahafnir í þessu samhengi.”

Leggur til ráðningastopp

Eftirfarandi er listi yfir fleiri baráttumál sem fylgja tilkynningu Þórðar:

„Bætt skilyrði atvinnurekstrar: Fasteignamat allra fasteigna hefur hækkað mikið á undanförnum árum, einkum og sér í lagi í Reykjavík. Fasteignagjöld hafa hins vegar haldist óbreytt sem hefur haft þær afleiðingar að æ fleiri fyrirtæki kjósa starfsemi sinni staðsetningu utan Reykjavíkur.

Skilvirkasta leiðin til að efla atvinnusköpun í borginni er að lækka álögur á atvinnulíf í borginni. Leiðin er ekki að leggja fram 10 ára áætlanir í ráðhúsinu sem gera ráð fyrir mikilli fjölgun opinberra starfsmanna.

Í stað orðagjálfurs um milljarðafjárfestingar í þekkingarkjörnum og vísindaþorpum í nafni nýrra atvinnutækifæra, ætti borgin að horfa til þess að lækka skatta á atvinnurekstur. Fasteignagjöld ættu að vera þar efst á blaði.

Faglegri stjórnun Orkuveitunnar: Ótækt er að rekstur samstæðu Reykjavíkurborgar sé háður afkomu Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Í stað þess að borgarsjóður skafi milljarða innan úr OR á hverju ári til að lappa upp á rekstarniðurstöðuna, ætti OR að fá svigrúm til þess nýta afrakstur sinnar starfsemi í fjárfestingar, viðhald og frekari uppbyggingu. Stjórn OR ætti jafnframt ekki að vera pólitískt skipuð heldur faglega.

Ráðningastopp: Á því kjörtímabili sem nú líður brátt undir lok hefur starfsmönnum innan A-hluta Reykjavíkurborgar fjölgað um 20 prósent, á meðan borgarbúum hefur fjölgað um átta prósent. Nú er svo komið að Reykjavíkurborg hefur um það bil einn starfsmann á sínum snærum fyrir hverja tíu íbúa. Leitun er að öðru eins á byggðu bóli. Stöðva þarf þessa þróun og hemja gegndarlausa fjölgun starfsfólks, en launakostnaður er langsamlega stærsti kostnaðarliðurinn í útgjöldum borgarinnar.

Aðbúnaður barna og unglinga við nám og frístundir: Of margir grunnskólanemenda í Reykjavík eru á hrakhólum vegna ónýtra skólabygginga. Miklu skiptir að byggja upp nýja skóla í nýjum hverfum, en óboðlegar aðstæður grunnskólabarna í Laugardal, vesturbæ Reykjavíkur og Fossvogi eru ekki síður mikilvæg úrlausnarefni. Að sama skapi er mikill skortur á viðunandi íþróttaaðstöðu víða um borg. Er hér um ræða grundvallarverkefni sveitarfélaga sem hefur verið vanrækt í Reykjavík á undanförnum árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert