Lilja Lind Pálsdóttir gefur kost á sér í 6. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Frá þessu greinir hún í tilkynningu.
Lilja Lind er fædd og uppalin í Garðabæ. Hún er með próf í viðskipta- og hagfræði og starfar sem sérfræðingur í lífeyrismálum hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ásamt því að vera hóptímakennari í World Class.
„Ég tel mig vera á besta aldri og tilbúin að takast á við nýjar áskoranir í að bæta mannlífið í Garðabæ,“ segir Lilja í tilkynningunni. Segist hún vilja leggja áherslu á að Garðabær verði áfram í forystu fyrir fjölskyldur með því að viðhalda leik- og grunnskólum bæjarins í fremstu röð. Fjölbreyttir kostir í húsnæðismálum verði fyrir ungt fólk, fjölskyldur í bænum sem og eldri bæjarbúa. Tengja þarf samgöngur við Álftanes og Urriðaholt betur við miðbæinn svo að börn og unglingar komist á öruggan hátt leiða sinna.
Prófkjör flokksins í sveitarfélaginu fer fram 5. mars, en kosið verður um átta efstu sætin í prófkjörinu. Þegar hafa 17 gefið kost á sér í prófkjörinu og verður meðal annars tekist á um oddvitasæti listans.