Ragnhildur Alda vill leiða Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir gefur kost á sér í fyrsta …
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir gefur kost á sér í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar í maí. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hefur ákveðið að gefa kost á sér til þess að leiða lista sjálfstæðismanna í borginni fyrir kosningar í vor. 

Fyrir hefur Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi gefið kost á sér til að leiða flokkinn. Það er því orðið ljóst að oddvitaslagur verður hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.

„Ég vil gefa kost á mér vegna þess að ég vil sjá Reykjavíkurborg vera í fremstu röð þegar kemur að húsnæðis- og samgöngumálum, leikskóla- og grunnskólamálum og þjónustu við íbúa almennt. Ég vil vera valkostur fyrir sjálfstæðismenn og tel mig eiga góða möguleika,“ segir Ragnhildur Alda, sem fékk fjölmargar áskoranir frá félögum flokksins í borginni um að láta vaða og bjóða sig fram til forystu. 

Ragnhildur Alda segist hvergi hrædd við opið prófkjör. „Við sjálfstæðismenn elskum valfrelsið og ég elska sjálfstæðismenn, svo að það kom ekkert annað til greina,“ segir hún og hlær.

Reynslan ekki eini mælikvarðinn

Hvað myndir þú vilja segja við fólk sem gæti talið þetta skref vera mjög stórt? Úr varaborgarfulltrúa í oddvita. 

„Ég myndi benda á að reynslumesti borgarfulltrúinn í borgarstjórn er borgarstjórinn okkar. Af árangri hans að dæma get ég ekki séð að reynsla hafi mikið að segja.“

Ragnhildur Alda lítur á stöðuna sem spennandi tækifæri til að koma sínum stefnumálum á framfæri og stefnumálum Sjálfstæðisflokksins. „Þetta verður spennandi prófkjör þar sem við erum núna tvær konur sem viljum leiða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf staðið framarlega hvar jafnréttis- og lýðræðismál varðar og fyrsti kvenborgarstjórinn Auður Auðunsdóttir kom úr röðum Sjálfstæðismanna. Ég er bara ótrúlega stolt af því að vera að fá tækifæri til að feta mögulega í hennar fótspor.“

Telur þú þig hafa sterkt bakland í Sjálfstæðisflokknum?

„Já ég er búin að gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn frá árinu 2015, bæði í stjórn Heimdallar og Varðar. Ég hef verið virk í starfi við kosningar og prófkjör og þekki vel til grasrótarinnar og tel mig eiga góða möguleika.“

Góð leið að lélegri þjónustu

Ragnhildur Alda segir áherslur sínar liggja í að Reykjavíkurborg verði til þjónustu reiðubúin. „Opinber stefnumörkun á að snúast um hvernig best er hægt að mæta þörfum Reykvíkinga, ekki öfugt,“ segir hún. Við það bætir hún að stefnumótun núverandi meirihluta hafi einkennst af forræðishyggju í húsnæðis-, samgöngu- og skólamálum. „Það er að mínu mati góð leið til að halda úti lélegri þjónustu.“

„Það sem hafi komið borginni inn í vítahring síversnandi þjónustu er þessi forræðishyggja sem er til grundvallar allri opinberri stefnumótun. Það hefur leitt til þess að þjónustuhættir borgarinnar eru ekki að vinna saman. 

Þéttingastefna núverandi meirihluta hefur gengið út á að byggja bara það sem innviðir eru að þolmörkum komnir. Þetta hefur leitt til aukins álags á leikskóla en var áður sem síðan ýtir undir álag á leikskólastarfsfólk. Mun erfiðara er að fá pláss í eigin hverfi og fólk hefur þurft að keyra mikið lengri vegalengdir en ella, sem leiðir síðan til meiri aksturs – þvert á stefnu meirihlutans.“

Vill ekki fækka bílastæðum

Ragnhildur Alda segist ekki vilja fækka bílastæðum í borginni. „Til þess að mæta mannfjöldaspá samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun þurfa að byggja næstu átta ár 27 þúsund íbúðir. Það þýðir að við erum ekki að fara að fækka bílastæðum. Bílastæði eru þjónusta við borgara.“

Hún segir að byggja þurfi á nýju landi og breikka þurfi úr borginni. „Byggja þarf á reitum utan þéttingareita og láta uppbyggingartækifærin stýra því hvar við byggjum,“ segir Ragnhildur Alda og bætir við að Sundabraut verði lykilaðgerð í að tengjast byggingalandi í Kjalarnesi.

„Þörfin þarf að móta hvernig borgin þróast. Fjölbreytt borg fyrir fjölbreytt fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka