„Mér finnst vinnubrögð kjörstjórnar í raun og veru mjög undarleg og þarna er verið að fremja mannréttindabrot, það er engin spurning um það,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu, félags fanga, í samtali við mbl.is um þá ákvörðun kjörstjórnar Samfylkingarinnar að meina honum þátttöku í prófkjöri flokksins.
„Flokkurinn hefur enga heimild til þess að ákveða neitt um mitt kjörgengi og síðan hefur flokkurinn heldur enga heimild til þess að ógilda framboð. Það er vissulega eitthvað sem við munum reyna á, á næstu misserum.“
Aðspurður segir Guðmundur að það sé „algjörlega“ ljóst að einhver í flokknum vildi ekki að hann fengi að taka þátt í flokksvalinu.
„Það er bara þannig, það er spenna í prófkjörum.“
Hann gagnrýnir kjörstjórn Samfylkingarinnar harðlega þar sem í janúarmánuði hafi honum verið tilkynnt af formanni kjörstjórnar að búið væri að fara yfir kjörgengi hans og stjórnin þá komist að þeirri niðurstöðu að hann væri kjörgengur.
„Þau sögðu einnig að þau væru tilbúin með svör ef einhver myndi kvarta og Samfylkingin stæði með mér 100% ef yfirkjörstjórn myndi taka þetta fyrir.“
„Tveimur til þremur dögum fyrir kosningar, þá virðist einhver skjálfti hafa komið einhvers staðar frá og þrýstingur á kjörstjórnina. Þannig að það er það sem gefur auga leið. Það myndast einhverskonar ringulreið.“
Guðmundur segir að þetta hafi legið fyrir í marga mánuði og hann væri búinn að vinna í kjörgengismálum sínum í heilt ár.
„Þetta lá alltaf fyrir og það var nægur tími til þess að skoða þetta betur. Mér hefði fundist réttast að fresta þessum kosningum og þá gæti úrskurðarnefndin kallað eftir fleiri gögnum frá aðilum eins og hún ætti að gera. Þannig ég er ekki sáttur við vinnubrögðin heldur.“
Guðmundur segir málið í raun snúast um misskilning í lögunum á hugtökunum reynslulausn, reynslutíma og skilorði.
Aðspurður segist Guðmundur ekki vera búinn að taka ákvörðun um hvort hann haldi áfram í flokknum.
„Ég er ekki byrjaður að pæla í þessu, við þurfum bara að anda djúpt og hugsa málið. Eins og ég segi þá munum við taka ákvörðun þegar við erum búin að fara almennilega yfir þetta,“ segir hann.
„Ég veit bara að ég er sigurvegari þessara kosninga. Ég er með gott fylgi innan flokksins. Ég hef staðið að góðri nýliðun í flokknum. Það er það sem ég er að vinna að, að Samfylkingin nái til breiðari hóps, hóps sem hún er ekki að ná til í dag en kennir sig samt við.“