„Mitt framboð var í raun til að fá þetta á hreint“

Guðmundur Ingi Þóroddsson skoðar þann möguleika að höfða miskabótamál á …
Guðmundur Ingi Þóroddsson skoðar þann möguleika að höfða miskabótamál á hendur Samfylkingunni. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við héldum að hann væri laus úr reynslulausn en svo kemur í ljós að svo var ekki, hann gat ekki sýnt okkur fram á það,“ segir Sigfús Ómar Höskuldsson, varaformaður kjörstjórnar Samfylkingarinnar um þá ákvörðun að meina Guðmundi Inga Þóroddssyni þátttöku í prófjöri Samfylkingarinnar. 

Í umfjöllun mbl.is fyrr í dag kom fram að gögn sem Guðmundur Ingi skilaði inn til kjörstjórnar þegar hann sóttist eftir að taka þátt í prófkjörinu, hefðu ekki reynst rétt. 

Spurður til hvaða gagna hann vísi, segir Sigfús: „Þetta er yfirlýsing sem allir þurfa að skila inn um eigið kjörgengi og er réttmæti þess á þeirra ábyrgð.“  

Guðmundur skilaði inn slíkri yfirlýsingu ásamt meðmælabréfi og fékk í kjölfarið staðfestingu á því að framboð hans væri gilt. 

Í aðdraganda kosninga barst kjörstjórn ábending þess efnis að Guðmundur uppfyllti ekki skilyrði laganna til kjörgengis, að sögn Sigfúsar. Var hann þá beðinn um frekari gögn. 

Framboðið liður í réttindabaráttu

„Ég skilaði bara eina plagginu sem ég átti til og það var ekki fullnægjandi, þau sendu það til Fangelsismálastofnunar til að fá úr því skorið hvort afplánun væri „að fullu lokið“, en plaggið sýndi í raun bara fram á það að ég væri ekki í fangelsi,“ segir Guðmundur Ingi. 

Guðmundur er ötull í réttindabaráttu fanga og gerði einmitt athugasemdir við frumvarpið sem varð að kosningalögum, um þetta tiltekna atriði, hvað fælist í því að einstaklingur þurfi að hafa „lokið afplánun að fullu“.

„Mitt framboð var í raun til að fá þetta á hreint,“ segir hann og bætir við að það séu vonbrigði að jafnaðarmannaflokkurinn sem Samfylkingin sé, skuli ekki vera tilbúinn að láta reyna á þetta.

Sigfús segir að kjörstjórn Samfylkingarinnar þyki þetta mjög leiðinlegt, tímaramminn hafi verið knappur og ekkert svigrúm til túlkunar. Guðmundur sé þá ef til vill að heyja baráttu sína á röngum vettvangi. 

Íhugar miskabótamál

Guðmundur ætlar sér ekki að leggja árar í bát heldur hyggst nú setjast niður með lögfræðingum og skoða næstu skref. Hann telur að málið geti ef til vill vakið áhuga Umboðsmanns Alþingis.

Þá er hann einnig að skoða þann valkost að höfða miskabótamál fyrir lágmarksuphæð á hendur Samfylkingunni til þess að fá málið reifað. 

„Ég hef trú á Samfylkingunni og verð þar áfram, þarna er frábært fólk en ég hef verið að berjast í því undanfarin ár að stækka fylkinguna svo hún nái til breiðari hóps, sem finnur sig hvergi í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert