Reynslulausn þarf að vera lokið til að einstaklingur teljist kjörgengur, að mati Kára Hólmars Ragnarssonar, lektors við lagadeild HÍ.
Er þetta niðurstaða hans eftir að hafa kynnt sér kosningalögin og þau gögn sem að baki þeim liggja. Lögin voru samþykkt í vor og er nú beitt í fyrsta skipti, í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.
Guðmundi Inga Þóroddssyni var meinuð þátttaka í prófkjöri Samfylkingarinnar um helgina, á þeim grundvelli að hann væri ekki kjörgengur, enda enn á reynslulausn. Guðmundur kærði ákvörðunina til yfirkjörstjónar, sem staðfesti ákvörðunina.
Hver sá sem hefur kosningarétt í sveitarfélagi og óflekkað mannorð er kjörgengur í sveitarstjórn. Hafi einstaklingur hlotið dóm fyrir refsivert brot telst hann ekki hafa óflekkað mannorð fyrr en viðkomandi hefur lokið afplánun „að fullu“. Þetta kemur fram í kosningalögunum.
„Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu segir að reynslulausn þurfi að vera alveg lokið,“ segir Kári.
Þá bendir hann á að Guðmundur gerði athugasemd, í aðdraganda lagasetningarinnar, í nafni félagasamtakanna Afstöðu, þess efnis að ákvæðið væri of óskýrt til þess að geta falið í sér svo mikla takmörkun á stjórnskipunarvörðum réttindum.
„Alþingi vissi þannig af þessum sjónarmiðum og nefndin fjallaði um athugasemdina. Nefndarálitið staðfestir það sem segir í frumvarpinu, að þegar maður fái reynslulausn sé afplánun lokið að fullu þegar reynslutíminn er búinn.“
Guðmundur hefur í þessu samhengi gagnrýnt skort á samræmi í hugtakanotkun milli kosningalaganna og laga um fullnustu refsinga.
„Þetta er óskýrt og ég skil alveg þann punkt en það vegur þungt að þetta kemur allt fram í undirbúningi við lagasetninguna og er alltaf eins í skýringargögnunum. Þessi gögn hjálpa því hans málstað ekki,“ segir Kári.