Magnús Davíð fer aftur í framboð

Magnús Davíð vill hafa áhrif í borginni.
Magnús Davíð vill hafa áhrif í borginni. Ljósmynd/Aðsend

Magnús Davíð Norðdahl hyggst gefa kost á sér í prófkjöri Pírata í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í vor. Hann sækist eftir öðru til fjórða sæti.

Frá þessu greinir hann í tilkynningu.

Magnús skipaði fyrsta sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar.

Hann var einn þeirra sem kærði kosningarnar til kjörbréfanefndar Alþingis. Magnús kraf­ist þess að Alþingi myndi ógilda kosn­ingu allra fram­boðslista stjórn­mála­sam­taka í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Alþingi féllst ekki á það.

Vill bæta lífsgæði jaðarsettra hópa

Magnús er með meistarapróf í lögfræði ásamt BA-gráðu í heimspeki. Samhliða háskólanámi sinnti hann kennslu í grunnskóla um fjögurra ára skeið. Þá hefur hann tekið þátt í starfi Íslandsdeildar Amnesty International og var um tíma stjórnarformaður deildarinnar. 

Hann segir að sem stjórnmálamaður vilji hann útvíkka baráttu sína í þágu fólks sem hefur átt undir högg að sækja.

„Á starfsferli mínum sem sjálfstætt starfandi lögmaður hef ég sinnt fólki sem hefur átt undir högg að sækja af ýmsum ástæðum og átt sér fáa ef einhverja málsvara. Ber þar hæst störf mín í þágu hælisleitenda en sá málaflokkur er pólitískur í eðli sínu. Barátta mín á þeim vettvangi hefur skilað árangri fyrir fjölda einstaklinga og fjölskyldna sem áður horfðu fram á brottvísun úr landi en fengu tækifæri til að setjast hér að og taka þátt og leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags.

Sem stjórnmálamaður langar mig almennt að útvíkka baráttu mína þannig að unnið sé að heildstæðum kerfisbreytingum til hagsbóta fyrir þá hópa samfélagsins sem hafa borið skarðan hlut frá borði, hvort sem það er fólk sem hefur misst vinnuna, láglaunafólk, erlent vinnuafl, hælisleitendur, vanrækt börn eða sá stóri hópur sem hvorki hefur efni á húsnæði til leigu né kaupa svo dæmi séu nefnd. Baráttan er enn sú sama en er háð á öðrum og stærri vettvangi stjórnmálanna þar sem tækifæri gefst til að efla hag fleiri einstaklinga á heildstæðum grunni. Þetta á ekki hvað síst við á sveitarstjórnarstigi þar sem ráðandi öflum hverju sinni gefst tækifæri til þess að bæta lífsgæði jaðarsettra hópa,“ segir Magnús í tilkynningunni.

Magnús er kvæntur Auði Kömmu Einarsdóttur atvinnuráðgjafa og saman eiga þau tvö börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert