Valgerður Sigurðardóttir vill halda þriðja sætinu

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi og frambjóðandi.
Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi og frambjóðandi.

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sæk­ist eft­ir 3. sæti í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík sem fer fram 18. til 19. mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Valgerði.

„Ég óska eftir stuðningi til að skipa áfram 3. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Á líðandi kjörtímabil hef ég beitt mér í málum er varða viðhald á skólahúsnæði í eigu Reykjavíkurborgar, bættu geðheilbrigði borgarbúa og styttri biðlistum því börn eiga ekki heima á biðlistum. Ég hef einnig lagt áherslu á að betur sé hugað að úthverfum borgarinnar sem oft virðast gleymast og hafa meðal annars orðið fyrir þjónustuskerðingum,“ skrifar Valgerður. 

Hún vill að hugað sé vel að því hvort innviðir þoli þéttingu byggðar áður en ákvarðanir sé teknar um slíkt. „Lífsgæði okkar eru ekki mæld í því hversu þétt við byggjum,“ skrifar Valgerður sem vill m.a. lækka útsvar í Reykjavík. Hún segir þó ekki um hversu mikið.

Vill lægra útsvar

„Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hámarksútsvar eða 14,52%. Stór fyrirtæki hafa valið að yfirgefa Reykjavík á undanförnum árum og færa starfsemi sína annað.“

Þá vill Valgerður stytta bið barna eftir nauðsynlegri þjónustu, efla heimaþjónustu fyrir aldraða og aðra sem á henni þurfa að halda. 

Á meðal stefnumála Valgerðar eru einnig „samgöngur fyrir alla“. 

„Á liðnum árum hefur ekki verið hugað að fjölbreyttum samgöngumátum, það þarf að fjölga valkostum óháð því hvort fólk notar eigin bifreið, almenningssamgöngur, reiðhjól eða annað.

Þá telur Valgerður mikilvægt að Reykjavíkurborg tryggi nægt framboð lóða.

„Þannig er slegið á þær miklu hækkanir sem hafa orðið á húsnæðismarkaði vegna þeirra vöntunar á framboði lóða sem hefur verið varanlegt vandamál í Reykjavík um árabil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert