Guðmundur Helgi Þorsteinsson, framkvæmdastjóri og ráðgjafi, býður sig fram í 2.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, sem fer fram 26. febrúar nk.
Guðmundur Helgi hefur verið virkur í starfi sjálfstæðisfélagsins og er varabæjarfulltrúi, situr í skólanefnd og er auk þess formaður íþrótta- og tómstundaráðs en sat áður í umhverfisnefnd.
Hann hefur sinnt eigin rekstri, fasteignum og fjárfestingum, rekið eigið einkahlutafélag síðan 1997 og hefur þar að auki sinnt verkefnum á vegum Erasmus plús á sviði stefnumótunar, samstarfsáætlunar á vegum Evrópusambandsins síðan árið 2019.
Guðmundur er með meistaragráðu frá York St. John viðskiptaháskólanum í York á Englandi, í innleiðingu nýsköpunar, breytingarstjórnunar og stefnumarkandi áætlanagerð.
Hann bjó um árabil í Sviss þar sem að hann starfaði sem framkvæmdastjóri tækni- og þróunarmála hjá Alþjóðablaksambandinu (FIVB), stærsta heimsíþróttasambandinu með 222 aðildarlönd innanborðs og hefur góða alþjóðlega stjórnunarreynslu og situr auk þess í stjórn Evrópublaksambandsins, (CEV) í Luxemborg.
Guðmundur leggur áherslu á að Seltjarnarnesbær sé þjónustustofnun með mannauð sem ber að efla og virkja í þágu íbúa og samfélagsins á Seltjarnarnesi, þar sem lögð er áhersla samtal og samvinnu við úrlausn mála.
Meðal helstu áhuga- og baráttumála hans er öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf sem þjónar fjölskyldum, að virkja aldraða til þátttöku í markvissri heilsueflingu og að skoða möguleika á nýjum íbúðum fyrir 65 ára og eldri þar sem margir Seltirningar þurfi að flytja sig um sveitarfélag selji þeir fasteign sína.