Viðvarandi húsnæðisskortur er á Austurlandi. Er hann farinn að hafa áhrif á vaxtarmöguleika fyrirtækja og kemur í veg fyrir að vinnufúsar hendur flytjist austur.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum hlaðvarpsþáttum Dagmála sem helgaður er sveitarstjórnarkosningunum. Í dag taka blaðamennirnir Stefán Einar Stefánsson og Karítas Ríkharðsdóttir hús á fólki í Múlaþingi, stærsta sveitarfélagi landsins sem varð til með sameiningu fjögurra sveitarfélaga árið 2020.
Í fyrsta þættinum taka þau hús á Sigrúnu Blöndal, sem lengi var íforystu sveitarstjórnar í Fljótsdalshéraði, Stefáni Boga Sveinssyni, fráfarandi leiðtoga Framsóknarmanna í Múlaþingi og Gunnari Gunnarssyni, ritstjóra Austurfréttar.
Sigrún segir að fyrst og fremst verði kosið um tvennt í komandi kosningum í Múlaþingi. Annars vegar hvernig til hafi tekist um sameiningu sveitarfélaganna og hins vegar húsnæðismál.
Bendir Gunnar á að spennan á fasteignamarkaði á svæðinu hafi verið orðin slík síðasta vetur að fasteignasali sem hann ræddi við hafi verið farinn að forðast það að mæta í vinnuna. Fólk hafi einfaldlega hangið á hurðarhúninum í leit að húsnæði.
Stefán Bogi segir að sveitarfélagið hafi lagt sig fram um að skipuleggja lóðir, ekki aðeins á Egilsstöðum heldur einnig öðrum byggðakjörnum sveitarfélagsins. Fyrst hafi vandinn verið sá að húsnæðisverð hafi ekki verið nægilega hátt til að freista byggingaverktaka. Þegar það hækkaði hafi hins vegar önnur vandamál tekið við, ekki síst skortur á iðnaðarmönnum til þess að reisa nýbyggingar á svæðinu.
Í þættinum bendir Gunnar á að þetta hafi haft ýmiskonar áhrif. Þannig hafi t.d. skyndibitastaðurinn Subway gefið þá skýringu fyrir brotthvarfi sínu frá Egilsstöðum að ekki fyndist húsnæði fyrir starfsfólk á svæðinu.
Í þessum fyrsta þætti er farið vítt og breitt yfir sviðið. Samhliða birtingu hans er einnig í birtingu þáttur þar sem Karítas og Stefán ræða við þá tvo frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi sem sækjast eftir fyrsta sætinu á lista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningunum. Þau eru Berglind Harpa Svavarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og Jakob Sigurðsson, bóndi og atvinnurekandi á Borgarfirði eystri.
Ítarlega umfjöllun um sveitarstjórnarkosningar og prófkjör á Austurlandi er einnig að finna í Morgunblaðinu.
Hlaðvarpið Dagmál - kosningar 2022