Heilsugæslur um allt land eru illa tækjum búnar og viðbrögð stundum ekki nógu góð við bráðavanda segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og frambjóðandi í oddvitasæti Sjálfstæðismanna í Múlaþingi.
Ásamt henni býður Jakob Sigurðsson, bóndi og bifreiðastjóri, sig fram til forystu sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem heldur prófkjör að þessu sinni í Múlaþingi og fer það fram á morgun.
Stefán Einar Stefánsson og Karítas Ríkharðsdóttir tóku púlsinn á frambjóðendunum í hlaðvarpsþætti Dagmála sem helgaður er sveitarstjórnarkosningunum. Hlaðvarpið má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum og einnig má heyra áðurnefnt viðtal í spilaranum hér að neðan.
Berglind segir að það vanti heilbrigðismenntað starfsfólk í stjórnmál sem talað geta af reynslu. „Í rauninni er þetta mjög dapurlegt ásand,“ segir Berglind og bendir á að íbúar í Múlaþingi séu í lengstu fluglínu frá höfuðborginni þar sem Landspítalinn er.
Hún segir fjórðungssjúkrahúsin öflug en það sé þrátt fyrir allt nokkur vegalengd fyrir íbúa Múlaþings á sjúkrahús. „Hér verðum við að getað brugðist við og vitað hver staðan er,“ segir Berglind og útskýrir að með bættum tækjakosti sé hægt að greina bráðavanda betur og senda veika beint í sjúkraflug suður á bráðamóttöku sé þess þörf eða vitað með betri vissu að ekki sé um bráðartilvik að ræða svo hægt sé að spara sjúkraflugið.
Enn fremur segir Berglind að erfitt geti reynst að manna stöður lækna á svæðinu. Stundum komi læknar sem ekki hafa lokið heilsugæslusérnámi og hvað þá bráðaþjónustu. „Þeir verða að fá öflugri tæki og tól í kringum sig. Það leiðir til sparnaðar, öflugrar heilbrigðisþjónustu og við stöndum vörð um líf og heilsu íbúa hér,“ segir Berglind. Undir þetta tekur Jakob.
Skýrt kom fram í samtali Dagmála við íbúa og sérfræðinga í sveitarfélaginu að húsnæðismál verði á oddinum í kosningunum í vor þar sem verulegur skortur hefur verið af íbúðarhúsnæði sem og atvinnuhúsnæði á svæðinu.
Jakob hefur setið í umhverfis- og framkvæmdanefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn á kjörtímabilinu. Hann segir það ekki við sveitarfélagið að sakast enda hrannist erindi inn til nefndarinnar og þau afgreidd jöfnum höndum. Ferlarnir séu þó of flóknir og langdregnir og segist hann vilja beita sér fyrir því að þeir verði einfaldaðir. Þá vanti byggingaraðila til að ráðast í framkvæmdir.