Fólk vill áfram ráðdeild í rekstri bæjarins

Ásdís Kristjánsdóttir.
Ásdís Kristjánsdóttir. Morgunblaðið/Óttar Geirsson

„Ég er fyrst og fremst auðmjúk og þakklát sjálfstæðismönnum í Kópavogi sem sýna mér þetta traust. Ég er stolt af kosningabaráttu minni og öllu því einstaka baráttufólki sem lagði mér lið,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir sem náði efsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem var sl. laugardag. Hún verður því í forystu á lista flokksins við bæjarstjórnarkosningarnar í maí.

Ásdís fékk 1.881 atkvæði í fyrsta sæti, en alls tók 2.521 þátt í prófkjörinu.

Samkvæmt öðrum niðurstöðum þess verður Hjördís Ýr Johnson í 2. sæti framboðlistans og Andri Steinn Hilmarsson í 3. sæti.

Í 4. sæti verður Hannes Steindórsson, Elísabet Berglind Sveinsdóttir í 5. sæti og Hanna Carla Jóhannsdóttir skipar 6. sætið. Karen Elísabet Halldórsdóttir sem sóttist eftir efsta sætinu, líkt og Ásdís, komst ekki á blað í efstu sætum.

Setjum markið hátt

Aðspurð segir Ásdís að sér lítist vel á þann hóp sem skipar efstu sæti framboðslistans. Þarna sé fólk með mikla og breiða þekkingu – og saman muni það skapa öfluga og kraftmikla liðsheild sem vinni af heilindum með hagsmuni Kópavogsbúa að leiðarljósi.

„Við eigum eftir að setjast niður saman og setja okkur markmið en að sjálfsögðu setjum við markið hátt í bæjarstjórnarkosningnum vor. Það er ekki spurning,“ segir Ásdís. „Ég held að áherslur mínar um skilvirkan rekstur, lágar álögur, framúrskarandi þjónustu, framsækna skóla og greiðar samgöngur eigi sér góðan hljómgrunn hjá sjálfstæðismönnum í Kópavogi. Slíkt er meðal skýringa á þeim góða stuðningi sem ég fékk. Fann sérstaklega að fólk vill sjá hér áfram ráðdeild í rekstri bæjarins og áherslu minni á framsækna skóla var líka afar vel tekið. Við eigum líka að halda áfram að byggja eftirsóknaverð hverfi í Kópavogi. Því fylgir að tryggja verður greiðar samgöngur fyrir bæjarbúa og standa vörð um hagsmuni Kópavogs í þessum efnum. Þá þurfum við að standa vörð um ábyrgan rekstur og leita leiða til að lækka álögur á fólk og fyrirtæki í bænum.“

Ásdís Kristjánsdóttir er 43 ára gömul og með menntun bæði í verk- og hagfræði. Fyrr á árum starfaði hún hjá Arion banka, en frá 2013 hjá Samtökum atvinnulífsins. Þar var hún lengi forstöðumaður efnahagssviðs og hafði þar með höndum greiningar á stöðu efnahagsmála. Frá 2020 fram á þetta ár var hún aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Reynsla í bæjarmálin

„Ég hef starfað sem greinandi og stjórnandi í rúman áratug og hef þar lagt ríka áherslu á málefni sem snúa að hinu opinbera, eins og opinberan rekstur, skólamál, velferðarmál og málefni aldraða svo dæmi séu tiltekin. Ég tek reynslu úr þessum málefnum með mér í bæjarmálin. Ég lét af störfum hjá Samtökum atvinnulífsins daginn sem ég tilkynnti um framboð mitt enda fór það ekki saman við framboðið. Verkefnið fram undan er að tryggja Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi góða kosningu í vor,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert