Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur fellt niður mál Inga Tryggvasonar, fyrrverandi formanns yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, fyrir brot á kosningalögum.
Þetta staðfestir Ingi í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá.
Ingi segist vita til þess að einn til viðbótar í kosningastjórninni hafi fengið bréf frá lögreglunni af sama tilefni og búast við því að allir fimm í kjörstjórninni muni fá slíkt bréf.
Inga Tryggvasyni, formanni yfirkjörstjórnar, var gert að greiða 250.000 króna sekt vegna ógætilegrar meðferðar kjörseðla við alþingiskosningarnar síðasta haust.
Aðrir í kjörstjórn fengu 150.000 króna sekt á mann.
„Ég átti svosem alltaf von á þessu. Ég vissi ekki til þess að ég hafi brotið neitt af mér,“ segir Ingi. Spurður hvort að einhvern tímann hafi komið til greina að greiða sektina segir Ingi: „Nei, aldrei nokkurn tímann“.