Friðjón færist niður um sæti – Hildur leiðir áfram

Hildur Björnsdóttir leiðir áfram í prófkjörinu.
Hildur Björnsdóttir leiðir áfram í prófkjörinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Hildur Björnsdóttir leiðir áfram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor þegar 3.313 atkvæði hafa verið talin. Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir er áfram í öðru sæti, en hún er með 1.464 atkvæði í 1.-2. sæti.

Samkvæmt sundurliðun atkvæða sem hefur verið birt á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins og sjá má hér að neðan hefur Ragnhildur Alda fengið 1.271 atkvæði í fyrsta sæti og munar því 334 atkvæðum á henni og Hildi í oddvitasætið.

Engin breyting varð á þriðja og fjórða sæti frá því að fyrstu tölur voru kynntar, en Kjartan Magnússon er áfram í þriðja sæti með 1.185 atkvæði í 1.-3. sæti. Marta Guðjónsdóttir er þá í fjórða sæti með 1.177 atkvæði í 1.-4. sæti.

Samkvæmt sundurliðuninni er Kjartan með tæplega 200 atkvæða forskot í þriðja sætið á Mörtu og Marta með súmlega 200 atkvæða forskot á næsta sæti fyrir neðan.

Björn Gíslason tekur hins vegar farm úr Friðjón R. Friðjónssyni og er nú í fimmta sæti með 1.104 atkvæði í 1.-5. sæti, en Friðjón er með 1.020 atkvæði í 1.-6. sæti. Munar rétt tæplega 200 atkvæðum á þeim Birni og Friðjóni í 1-.5. sæti. og þá munar aðeins 15 atkvæðum á Friðjóni og Helga Áss Grétarssyni, sem kemur í sjöunda sæti, en hann er með 1.220 atkvæði í 1.-7. sæti og heldur sætinu frá fyrstu tölum.

Þær Sandra Hlíf Ocares og Birna Hafstein, sem voru í áttunda og níunda sæti samkvæmt fyrstu tölum, detta hins vegar út og koma þær Valgerður Sigurðardóttir og Jórunn Pála Jónasdóttir inn í þau sæti. Er Valgerður með 1.326 atkvæði í 1.-8. sæti og Jórunn Pála með 1.470 atkvæði í 1.-9. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert