Framboðslisti Vinstri-grænna í Borgarbyggð samþykktur

Frambjóðendur Vinstri grænna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Borgarbyggð.
Frambjóðendur Vinstri grænna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Borgarbyggð. Ljósmynd/Aðsend

Framboðslisti Vinstri-grænna í Borgarbyggð var samþykktur á félagsfundi í dag. Frá þessu er greint í tilkynningu.

Hin 26 ára gamla Thelma Harðardóttir er oddviti listans en hún er verkefnastjóri hjá Sambandi sveitarfélaga á Vesturlandi. Thelma, sem er frá Skarðshömrum í Norðurárdal, kemur ný inn í pólitíkina en hefur tekið forystu í náttúruverndarbaráttu í sinni heimasveit, að því er segir í tilkynningunni.

Í öðru sæti listans situr Brynja Þorsteinsdóttir en hún er leiðbeinandi á leikskólanum Uglukletti í Borgarnesi og hefur verið varamaður í sveitarstjórn Borgarbyggðar undanfarin þrjú ár, ásamt því að hafa setið í fjölda nefnda og ráða á vegum VG í Borgarbyggð.

Friðrik Aspelund, skógfræðingur og leiðsögumaður frá Hvanneyri, er í þriðja sæti en hann hefur verið virkur í starfi Vinstri-grænna og sveitarstjórnarmálum í Borgarbyggð um árabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert