Áslaug Hulda Jónsdóttir hyggst ekki þiggja annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Hún sóttist eftir að leiða listann en varð að lúta í lægra haldi fyrir Almari Guðmundssyni sem einnig sóttist eftir fyrsta sætinu. Aðeins munaði 41 atkvæði á Áslaugu og Almari í fyrsta sætið.
Áslaug, sem hefur verið formaður bæjarráðs Garðabæjar síðustu átta ár og þar áður forseti bæjarstjórnar, segist frekar vilja snúa sér að öðrum verkefnum og skapa rými fyrir nýtt fólk.
„Ég er búin að vera lengi þarna og sóttist eftir því að leiða flokkinn. Þó það hafi munað litlu þá náði ég því ekki. Þá finnst mér eðlilegra að skapa rými fyrir nýtt fólk á listanum og ég fer að einbeita mér að einhverju öðru,“ segir Áslaug aðspurð um ástæður þess að hún þiggi ekki sætið. Hún tekur þó fram að hún sé ekki hætt í Sjálfstæðisflokknum og þyki áfram vænt um bæinn sinn.
Áslaug viðurkennir að hún sé svekkt, enda hefði hún ekki þurft nema 21 atkvæði frá Almari til að landa fyrsta sætinu. „Það er ekkert skemmtilegt að tapa, en svona virkar lýðræðið og það getur allt gerst í pólitík. Það hef ég lært á löngum ferli.“
Hún segir listann skipaðan flottu og öflugu fólki og vonar að þeim muni gang vel í vor.