Hrafndís Bára Einarsdóttir mun leiða lista Pírata á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum en þar munu Píratar bjóða fram eigin lista og stefna á að ná inn fulltrúa í bæjarstjórn. Pétur Óli Þorvaldsson mun leiða Pírata á Ísafirði og stefna Píratar þar einnig á sjálfstætt framboð. Björn Gunnlaugsson verður oddviti Pírata á Seltjarnarnesi en Píratar bjóða þar fram í samstarfi við Viðreisn og óháða.
Varð þetta ljóst í kjölfar þess að prófkjörunum lauk um miðjan dag í gær.
62 kusu í prófkjöri Pírata á Akureyri en í öðru sæti listans er Karl Vinther og Ólafur Búi Ólafsson í því þriðja. 56 kusu á Ísafirði en Herbert Snorrason er í öðru sætinu þar og Sindri Már Sigrúnarson í því þriðja. 49 kusu á Seltjarnarnesi en Logi Björnsson er í öðru sæti þar.
Prófkjörið var opið Pírötum á landsvísu en alls eru 5376 skráðir í flokkinn. Því var kjörsókn í hverju prófkjöri fyrir sig um 1%.