Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar í Reykjavík segir aukið fylgi flokksins í borginni ekki koma á óvart enda sé mikil þreyta í garð þeirra sem setið hafa í borgarstjórn undanfarið kjörtímabil.
Þá telur hann ekki líklegt að niðrandi ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra og formanni flokksins, muni koma til með að hafa neikvæð áhrif á fylgið og stendur hann við bakið á flokksbróður sínum.
Einar segir stefnu flokksins skýra, Framsókn sé frjálslyndur og fjölmenningarsinnaður velferðarflokkur, og að ummælin hafi engin áhrif á hana.
Samkvæmt niðurstöðum könnunar Maskínu hefur fylgi flokksins Í Reykjavík bætt við sig fjórum prósentustigum og stendur nú í 14%. Er það ríflega tíu prósentustigum meira en flokkurinn uppskar í síðustu sveitarstjórnarkosningum þegar hann hlaut rúmlega 3% atkvæða.
„Það er gaman að sjá þessar tölur. Þær koma mér í sjálfu sér ekkert rosalega á óvart vegna þess að ég finn fyrir mikilli þreytu í garð meirihlutans og reyndar minnihlutans líka,“ segir Einar sem skynjar ákall eftir nýju stjórnmálaafli í borginni sem sé bæði lausnamiðað og skynsamt.
„Og svona aðeins ábyrgara en þeir flokkar sem hafa verið í borgarpólitíkinni undanfarið kjörtímabil sem hafa gert ágreining út af minnstu málum og misst augun af boltanum.“
Spurður út í niðrandi ummæli sem flokksbróðir hans Sigurður Ingi lét falla í garð Vigdísar Häsler Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, kveðst Einar ekki hafa trú á því að þau muni hafa áhrif á fylgi Framsóknar í Reykjavík.
„Ég held að hann hafi brugðist við með einlægum hætti með því að biðjast afsökunar. Ég held að fólk sjái að honum þyki þetta leitt og honum er alvara þegar hann biðst afsökunar. Ég held að borgarbúar muni meta framboð Framsóknar í borginni að verðleikum. Hér er bara öflugur listi af fólki sem vill láta gott af sér leiða.“