Ekki verði hik á fyrirhuguðum framkvæmdum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt er að ekki verði hik á fyrirhuguðum framkvæmdum í Reykjavík á næsta kjörtímabili, sem er lykilkjörtímabil varðandi það að gera þær að veruleika.

Þetta sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Hann sagði komandi sveitarstjórnarkosningar snúast um hvort Reykjavík sé á réttri leið, sem hún sé tvímælalaust. Hann sagði húsnæðismálin verða fyrirferðarmikil í kosningabaráttunni. Hann nefndi áætlun borgarinnar um tvöföldun lóðaframboðs hjá borginni, sagði að borgarlínan eigi að komast til framkvæmda á næsta kjörtímabili og Miklabraut verði sett í stokk, auk þess sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar á göngu- og hjólreiðastígum.

„Þetta plan liggur fyrir og það er mikilvægt að ekki verði hik á því,“ sagði hann og nefndi einnig húsnæðissáttmála og Græna planið, fjárfestingaáætlun til lengri tíma sem snúi að fjárfestingum í innviðum, m.a. leikskólum, viðbyggingum við grunnskóla og íþróttamannvirki.

„Mér heyrist tekist á um það hvort við höldum okkur við þessar áætlanir eða hvort það eigi að skipta um kúrs og setja fjárfestinguna og athyglina á hverfi þar sem enginn býr ennþá með dreifingu byggðar annað,“ bætti hann við.

Hildur Björnsdóttir.
Hildur Björnsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði að í kosningunum væri hægt að kjósa um að halda áfram að „hjakka í sama farinu“ og tala um hlutina en ekki framkvæma þá. 

Hún sagði Sjálfstæðisflokkinn eina hreyfiaflið í borginni sem geti innleitt breytingar og sinnt grunnþjónustu við íbúana. Flokkurinn sé ekki „kjaftaklúbbur í Ráðhúsinu“ heldur muni hann „raunverulega framkvæma“ í borginni.

Húsnæðisuppbygging í lamasessi

Hún sagði húsnæðisuppbyggingu, leikskóla- og samgöngumál hafa verið í lamasessi á kjörtímabilinu. Ekkert hafi gerst í þeim efnum. „Það kann að vera að Dagur hafi verið handhafi framtíðarinnar en hann er núna hluti af fortíðinni,“ sagði hún og bætti við að húsnæðisskortur væri í borginni enda sé hún ekki að skipuleggja nógu mörg svæði. Hún sagði kerfið svifaseint og tafirnar miklar.

Dagur sagði borgina vera að koma út úr fimm ára mettímabili í uppbyggingu og sagðist vilja að það haldi áfram. Nefndi hann að meirihlutinn í borginni hafi m.a. útdeilt lóðum á óhagnaðardrifnu húsnæði fyrir fólk með lægri tekjur.

Vill óháða sérfræðinga vegna borgarlínu

Þegar Hildur var spurð út í afstöðu Sjálfstæðisflokksins til borgarlínu sagði hún flokkinn styðja stórbættar og nútímalegar almenningssamgöngur og bætti við að flokkurinn sé tilbúinn til að fá óháða sérfræðinga til að endurmeta forsendur verkefnisins.

Spurð hvort flokkurinn ætlaði að stöðva verkefnið sagði hún að flokkurinn ætlaði að fara í borgarlínu en útfæra hana á forsendum íbúa og atvinnurekenda í borginni.

Dagur sagði algjöra samtöðu um borgarlínu hjá meirihlutanum í borginni og að hún njóti stuðnings í samfélaginu. Deilur hafi aftur á móti verið um málið innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert