Bæta þarf samskiptin

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, er gestur hlaðvarps Dagmála.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, er gestur hlaðvarps Dagmála. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

„Það erfiðasta í mínu starfi eru samskiptin við ríkið því miður. Það er eitthvað sem þarf að laga, það eru samskipti ríkis og sveitarfélaga.“

Þannig kemst Ásthildur Sturludóttir bæjartjóri á Akureyri í samtali við þá Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson sem sóttu höfuðstað Norðurlands heim fyrir skemmstu til að ræða málefni sveitarfélaganna í aðdraganda kosninga í maí næstkomandi.

Bendir Ásthildur á að hún hafi verið bæjarstjóri í 12 ár, bæði á Akureyri og í Vesturbyggð. Reynsla hennar sé sú að fyrrnefnd samskipti séu ekki á góðum stað.



Og á þetta við alla pósta?

„Meira og minna. Og það hefur ekki skipt neinu máli hver er í brúnni hvaða pólitísku flokkar eru við stjórnvölinn.“

Segir hún að þetta birtist í miklum seinagangi í svörum og við afgreiðslu erinda. Langan tíma taki að klára mál.

Eru menn vísvitandi að draga lappirnar?

„Það er vöntun á að taka ákvarðanir. Það þarf að klára að taka ákvarðanir. Sum mál eru bara mjög flókin, með flókna sögu, flókinn bakgrunn. Og það eru alltaf einhverjir sem þekkja söguna aftur til 1918 og þá voru hlutirnir svona eða hinseginn og það má ekki hvika af leið.“

Svo þarf alltaf að fá vink frá ráðherra?

„Já og það getur stundum tekið alltof, alltof, alltof langan tíma.“

Ítarlegt viðtal við Ásthildi má hlusta á í spilaranum hér að ofan og það má einnig nálgast á helstu hlaðvarpsveitum á borð við Spotify.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka