Kallaður í viðtal af fæðingardeildinni

Jakob Björgvin Jakobsson (í miðið) brást skjótt við beiðni Dagmálateymisins …
Jakob Björgvin Jakobsson (í miðið) brást skjótt við beiðni Dagmálateymisins og skaust af fæðingardeildinni og náði stuttu spjalli yfir kaffibolla á bókasafninu á Skaganum. Morgunblaðið/Brynjólfur Löve

Það gekk mikið á í lífi Jakobs Björgvins Jakobssonar, sveitarstjóra í Stykkishólmi síðastliðinn mánudag. Hann var þá kallaður óvænt í viðtal þegar eiginkonan var komin á fæðingardeildina á sjúkrahúsinu á Akranesi.

„Ég ætti að geta hitt ykkur stuttlega á eftir. Þetta er allt að fara af stað en ef þið verðið hérna fyrir hádegið þá ætti það að ganga.“

Þannig brást Jakob við fyrirspurn blaðamanna Morgunblaðsins sem vildu ná tali af honum í tengslum við heimsókn í Hólminn. Hann var hins vegar kominn á Akranes í fyrrnefndum erindagjörðum. Komið að því að hann fengi þriðja barn sitt og Soffíu Öddu Andersen Guðmundsdóttur. Fyrir átti Jakob svo eitt barn. 

 Það runnu tvær grímur á blaðamenn þegar í ljós kom hvaða staða var uppi á Skipaskaga en vissulega freistandi að ná tali af sveitarstjóranum. Var því gert stutt stopp í bænum á leiðinni í Stykkishólm. Sem fyrr leitaði blaðið ásjár frábærra starfsmanna Bókasafns Akraness og þar var upptökubúnaður settur upp.

Viðtalið gekk eins og í sögu og má hlusta á það í spilaranum hér að ofan. Að upptöku lokinni var pakkað saman en Jakob Björgvin dreif sig upp á sjúkrahús.

Síðar um kvöldið fæddist dóttir þeirra Soffíu og Jakobs og fengu Dagmálamenn þær fréttir að allt hefði gengið að óskum og viðtalið hefði ekki sett þar neitt strik í reikninginn.

Síðar á mánudaginn tóku Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson hús á þeim Hafþóri Benediktssyni hjá BB og synir ehf. og Hrafnhildi Hallvarðsdóttur sem er oddviti H-listans sem er í meirihluta í sveitarstjórn í Stykkishólmi.

Viðtalið við þau má hlusta á í spilaranum hér að neðan.

Í Morgunblaðinu á morgun verður fjallað um heimsókn Dagmála í Vesturbyggð. Samhliða birtingu þess verða viðtöl við stjórnmálafólk og atvinnurekendur í sveitarfélaginu gerð aðgengileg í spilurum á mbl.is og á helstu hlaðvarpsveitum á borð við Spotify.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka