Dagur skýtur á Einar, sem skýtur til baka

Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson.
Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson. Samsett mynd

„Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins veit ekki alveg í hvorn fótinn hann eigi að stíga í húsnæðismálum og borgarþróun,“ skrifar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur á facebooksíðu sína.

Að sögn Dags lýsti Einar eindregnum stuðningi við Borgarlínu og þéttingu byggðar á fundi Samtaka um bíllausan lífsstíl í síðustu viku.

Boðar mestu dreifingu byggðar sem heyrst hefur af

„Í Morgunblaðinu í morgun boðar hann hins vegar mestu dreifingu byggðar sem heyrst hefur af - stefnu sem Miðflokks-armur Sjálfstæðisflokksins hefur talað fyrir en allar greiningar sýna að myndi framkalla stóra-stopp í húsnæðisuppbyggingu og samgöngum í Reykjavík,“ skrifar Dagur.

Dagur segir að Reykjavíkurborg hafi fyrir skemmstu boðað tvöföldun lóðaframboðs. Mesta uppbyggingarátak í sögu borgarinnar hafi staðið yfir síðustu fimm ár og nú verði enn frekar gefið í á vel staðsettum reitum með tilliti til Borgarlínu og samgangna.

Einar boðar þess í stað uppbyggingu í Keldnalandi og á Geldinganesi - þó hann viðurkenni að þessi svæði muni ekki byggjast upp fyrr en eftir fimm eða tíu ár. Það að hverfa frá uppbyggingu á tilbúnum þéttingarreitum boðar ekki sókn, heldur stórastopp í húsnæðisuppbyggingu,“ skrifar Dagur.

Hann segir stefnu borgarinnar ekki úr lausu lofti gripna en skipulag hennar og uppbygging byggi á ítarlegri valkostagreiningu og samgöngurýni. Borgin þétti byggð við Borgarlínu og tengi húsnæðisuppbyggingu þannig við heildarsýn og samgöngulausnir til framtíðar.

Byggð á Keldum og Geldinganesi án Borgarlínu og breyttra ferðavenja myndi stóraauka við bílaumferðina á Miklubraut og Sæbraut - þetta þýddi stórastopp í umferðarmálum,“ skrifar Borgarstjóri.

Dagur bendir enn fremur á að öll uppbyggingaráform borgarinnar séu hugsuð sem hluti af Græna planinu og markmiðum um kolefnishlutlaust borgarsamfélag.

Þessi framtíðarsýn Framsóknarflokksins fellur því á öllum þremur lykilprófunum: það hægist á húsnæðisuppbyggingu, hægist á umferðinni og loftslagsmarkmið um græna borg nást ekki,“ skrifar borgarstjóri.

Segir borgarstjóra misskilja málið

Einar leggur sjálfur orð í belg við færslu Dags og segir borgarstjóra misskilja málið. Hann vilji ekki stöðva þéttingaráformi sem þegar eru í pípunum og vilji ekki stöðva Borgarlínu.

„Ég vil hinsvegar byggja enn meira til viðbótar og á fleiri stöðum en til stendur hjá ykkur. Keldnalandið er t.d. hluti af Samgöngusáttmálanum og þar þarf að byggja svo hægt sé að fjármagna Borgarlínu. Það má því segja að ég standi einmitt í báða fætur og þeir eru kyrfilega á jörðinni,“ skrifar Einar.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert