Vinstri græn vilja flýta Borgarlínu

Líf Magneudóttir oddviti VG þegar kosningaáherslurnar voru kynntar í dag.
Líf Magneudóttir oddviti VG þegar kosningaáherslurnar voru kynntar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinstri græn vilja flýta Borgarlínu fái þau til þess umboð að loknum borgarstjórnarkosningum í næsta mánuði en Vinstrihreyfingin - grænt framboð kynnti stefnumál sín fyrir kosningarnar í Reykjavík í dag. 

„Við ætlum að flýta Borgarlínu og tryggja að vistvænir ferðamátar verði sjálfsagður valkostur
borgarbúa. Við viljum að fólk geti gengið, hjólað og rúllað sér um borgina á auðveldan hátt. Strætó er grunnþjónusta og lykilleiðir eiga að ganga lengi og vera tíðar. Endurvekjum
næturstrætó,“ segir í kynningu frá VG. 

VG hefur hug á að nýta borgarlandið undir annað en mislæg gatnamót: „Mislæg gatnamót verði víkjandi í skipulagi borgarinnar því það er betra fyrir lífsgæðin að nýta
borgarlandið undir húsnæði og græn útivistarsvæði.“ 

Í svipuðum dúr er stefnumál hjá VG að minna pláss fari undir bíla og bílastæði. „Við viljum breyta Aðalskipulagi þannig að i öllu skipulagi sé meira pláss lagt undir mannlíf,
gróður og vistvæna samgöngur og að minnihluti plássi [sic] fari undir bíla og bílastæði.“

Vilja byggja 500-1.000 Reykjavíkurbústaði

Eitt og annað kemur fram í kosningaáherslum framboðsins varðandi húsnæðismálin. VG ætlar að byggja 500-1000 Reykjavíkurbústaði á ári fyrir borgarbúa til viðbótar við húsnæðisáætlun borgarinnar. VG ætlar einnig að fjölga leiguíbúðum Félagsbústaða og íbúðum fyrir fatlað fólk um 700 á kjörtímabilinu. 

Einnig segir í stefnuskránni: „Við ætlum að ganga lengra og tryggja öllum borgarbúum húsnæði,“ og tryggja á heimilislausum húsnæði á þeirra forsendum. 

Gjaldfrjálsir skólar

VG vill gera menntun barna gjaldfrjálsa í leik-og grunnskólum og máltíðir í á þessum skólastigum verði endurgjaldslausar. 

„Við ætlum bjóða uppá sumarfrístundakort svo öll börn geti notið frístundastarfs allt árið,“ segir einnig í stefnuskránni. 

Þá vill VG taka upp frístundakort og lækka árskort eldra fólks í Strætó. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert