Viðreisn vill að frítt verði í leikskóla fyrir 5 ára börn

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek í …
Þórdís Jóna Sigurðardóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek í Árbænum í dag en þau skipa þrjú efstu sætin á lista flokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðreisn stefnir að því að frítt verði fyrir 5 ára gömul börn í leikskólum í Reykjavík fái flokkurinn til þess umboð en Viðreisn kynnti í dag áherslur sínar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. 

Einnig vill Viðreisn að frítt verði í alla grunnskóla óháð rekstrarformi. Þar með hafi foreldrar aukið val um skóla óháð efnahag. 

„Við leggjum sérstaka áherslu á börnin og höfum verið að undirbyggja það allt kjörtímabilið. Þá erum við að tala um verkefni eins og betri borg fyrir börn þar sem við færum þjónustuna nær börnunum og minna miðlægt. Við erum að kynna í dag tillögur um hvernig við viljum sjá einkaframtakið koma meira inn í leikskólamálin til að brúa bilið. Svo erum við með hugmyndir um ókeypis í skóla óháð rekstrarformi því staðreyndin er sú að foreldrar greiða skólagjöld í einkareknum skólum eins og í Hjallastefnunni eða Ísaksskóla. Þetta eru stærstu málin ásamt því að Viðreisn vill að frítt verði fyrir fimm ára börn í leikskóla, allt að sex tíma á dag,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í Reykjavík. 

Eru fylgjandi Sundabraut

Þórdís Lóa tekur skýrt fram að Viðreisn sé fylgjandi Sundabraut og nefnir að það hafi ekki komist almennilega til skila til þessa. 

„Við erum með alveg skýra sýn í húsnæðismálum og í sambandi við þéttinguna. Við viljum bæði þétta byggð og halda áfram að byggja ný hverfi. Við skrifuðum í dag í borgarráði undir viljayfirlýsingu við ríkið um að fara í uppbyggingu í Keldnaholti. Það er skemmtilegt skref en auðvitað er langur tími þar til það gerist. En að það sé komið á pappíra skiptir máli. 

Við viljum einnig taka skýrt fram að við erum heilshugar stuðningsmenn Sundabrautar fyrir alla samgöngumáta og höfum alltaf verið. Það hefur verið dregið í efa af því að við erum í meirihlutanum en við höfum alltaf stutt Sundabraut þótt það hafi ekki komist almennilega til skila. Sundabraut er ekki bara beinn samgönguábati fyrir okkur heldur er það einnig hluti af þéttingu byggðar, uppbyggingu atvinnu upp á Esjumölum og beintengingu við Kjalarnes sem við höfum mikla trú á. Við erum þegar byrjuð að þétta byggð upp á Kjalarnesi og búin að samþykkja lóðir í þéttingunni þar. Allt er þetta partur af einni risastórri mynd og um það snýst þetta. Að hafa skýra sýn tíu til tuttugu ár fram í tímann og halda þeirri línu.“

Sér Þórdís fyrir sér að samstarf flokkanna sem myndað hafa meirihluta á kjörtímabilinu muni halda áfram? 

„Samstarfið hefur bara gengið mjög vel. Þetta eru ólíkir flokkar og höfum ákveðið pólitískt litróf. En við erum sammála um stóru myndina og þetta hefur því gengið vel. Ég er oft spurð að því hvort við séum föst í því að sami meirihluti muni halda áfram en það er ekki. Við gönum óbundin til þessara kosninga. Það sem kemur upp úr kjörkössunum mun segja okkur hvernig næstu skref verða tekin,“ sagði Þórdís Lóa.

Með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan má kynna sér stefnu Viðreisnar. 

Stefnumál Viðreisnar í Reykjavík

Viðreisn stefnir að því að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði enda sé Reykjavík í samkeppni við önnur sveitarfélög. Álagningarhlutfallið hafi farið úr 1,65% í 1,60% á kjörtímabilinu sem senn er á enda og á því næsta eigi það að lækka frekar eða í 1,55%.

Viðreisn styður lagningu Sundabrautar og eðlilegt sé að fjármagna hana með beinni gjaldtöku.

Til að fjármagna kosningaloforðin segir m.a. í kynningu flokksins að hagræðing í rekstri geti sparað 500-1.000 milljónir á ári. Gistináttagjald geti skilað 300-600 milljónum á ári. Sala á eignum og lækkun skulda geti skilað 100-200 milljónum á ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert