Sveitarstjórnarkosningar fara fram 14. maí og eru tæpar tvær vikur í kosningar. Frá opnun utankjörfundaratkvæðagreiðslu hafa samtals 1.839 greitt atkvæði hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en alls hafa 2.537 kosið á landinu öllu. Á sama tíma í sveitarstjórnarkosningum árið 2018 hafði alls 1.121 greitt atkvæði utan kjörfundar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Kjörsókn utan kjörfundar er því meiri nú en árið 2018. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar stendur yfir í fjórar vikur en í síðustu sveitarstjórnarkosningum stóð hún yfir í átta vikur.
Sígríður Kristinsdóttir, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, segir að búist sé við að kjörsókn muni aukast verulega næstu tvær vikur og því verði utankjörfundaratkvæðagreiðsla opin lengur. Frá og með deginum í dag verður hún opin frá klukkan 10 til 22 alla daga vikunnar í Holtagörðum á 2. hæð. Á kjördag, 14. maí, verður opið frá klukkan 10 til 17 fyrir þá sem eru á kjörskrá utan höfuðborgarsvæðisins.